Handbolti

Besti leikmaður Víkinga semur til tveggja ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vísir/Ernir
Jóhann Reynir Gunnlaugsson, stórskytta Víkings í handbolta, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Þetta kemur fram á heimasíðu Víkings, en Jóhann Reynir var markahæsti leikmaður liðsins í 1. deildinni á síðustu leiktíð er hann skoraði 154 mörk í 24 leikjum.

Jóhann Reynir var lykilmaður í Víkingsliðinu sem komst upp í úrvalsdeildina á ný eftir spennandi umspil við Fjölni sem endaði í oddaleik.

Eftir tímabilið var skyttan svo kjörinn besti leikmaður Víkings á lokahófi félagsins og þá var hann í úrvalsliði 1. deildar sem kynnt var á lokahófi KSÍ.

Fram kemur í frétt Víkinga að Jóhan Reynir hafnaði tilboði frá Noregi, en hann vildi þess í stað taka slaginn í efstu deild með uppeldisfélaginu.

„Við þjálfararnir erum gríðarlega ánægðir með að samningar við Jóhann séu nú í höfn. Jóhann er gríðarlega fjölhæfur leikmaður jafnt i vörn sem sókn og mikil  fyrirmynd. Að auki er hann uppalinn  hjá félaginu sem skemmir ekki fyrir.  Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir félagið,“ segir Ágúst  Þór Jóhannsson, þjálfari Víkings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×