Enski boltinn

Blind: Ég hafnaði frábæru tilboði frá Manchester United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blind lék á sínum tíma 42 landsleiki fyrir Holland.
Blind lék á sínum tíma 42 landsleiki fyrir Holland. vísir/getty
Danny Blind, nýráðnum landsliðsþjálfara Hollands, bauðst að fylgja Louis van Gaal til Manchester United. Þetta sagði hann í samtali við Algemeen Dagblad.

Blind og van Gaal þekkjast vel en sá fyrrnefndi lék undir stjórn van Gaals hjá Ajax á 10. áratug síðustu aldar. Blind var svo aðstoðarmaður van Gaals þegar hann stýrði hollenska landsliðinu 2012-14.

„Ég fékk frábært tilboð frá Manchester United,“ sagði Blind.

„En ég hafnaði því. Það er ekkert betra fyrir metnaðarfullan þjálfara en að fá að stýra heimalandi sínu,“ bætti Blind við en í gær var staðfest að hann tæki við hollenska landsliðinu af Guus Hiddink.

Blind átti upphaflega að taka við landsliðinu eftir EM 2016 en hlutirnir æxluðust á annan hátt eftir að Hiddink sagði af sér í byrjun vikunnar.

Hiddink tók við starfi landsliðsþjálfara Hollands af van Gaal en undir hans stjórn vann Holland til bronsverðlauna á HM 2014. Árangurinn var hins vegar ekki merkilegur með Hiddink í brúnni en Holland vann aðeins fjóra af 10 leikjum sínum undir hans stjórn.

Á þessu tímabili tapaði Holland m.a. fyrir Íslandi á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2016. Íslendingar eru í toppsæti riðilsins, fimm stigum á undan Hollendingum sem eru í því þriðja. Þrátt fyrir brösuga byrjun í undankeppninni er Blind bjartsýnn á að koma Hollandi inn á EM.

„Við vitum hvað við þurfum að gera: vinna fjóra leiki, fyrst á móti Íslandi 3. september.

„Við megum ekki við því að tapa fleiri leikjum. En við erum með nóg af gæðum í liðinu til að ná þessu markmiði okkar,“ sagði Blind sem hefur litla reynslu sem aðalþjálfari. Hann stýrði Ajax í rúmt ár, frá mars 2005 til maí 2006, en þá er reynsla sem aðalþjálfari upptalin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×