Fótbolti

Pirlo: Tapið gegn Liverpool 2005 versta stund lífs míns

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andrea Pirlo ætlar að vinna Meistaradeildina í þriðja sinn.
Andrea Pirlo ætlar að vinna Meistaradeildina í þriðja sinn. vísir/getty
Andrea Pirlo, miðjumaðurinn magni í liði Juventus, gæti spilað sinn síðasta leik fyrir „gömlu konuna“ annað kvöld þegar liðið mætir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Berlín.

Hann íhugar það alvarlega að láta gott heita í Evrópu lyfti hann bikarnum á morgun og fara í MLS-deildina í Bandaríkjunum. Þar bíða hans gull og grænir skógar.

„Ef við vinnum gæti ég spilað í öðru landi því ég spila ekki fyrir annað lið á Ítalíu. MLS er góð hugmynd, en þessa stundina hugsa ég ekki um neitt annað en Juventus og úrslitaleikinn,“ sagði Pirlo við fréttamenn í Berlín.

Pirlo vann Meistaradeildina tvívegis sem leikmaður AC Milan, fyrst eftir sigur á Juventus á Old Trafford 2003 og svo aftur eftir sigur á Liverpool í Aþenu 2007.

„Þetta verður fjórði úrslitaleikurinn minn, en það skiptir engu máli. Svona leikir eru alltaf sérstakir og öðruvísi. Við vitum hvað við þurfum að gera. Barcelona er sigurstranglegra liðið en allt getur gerst í fótbolta,“ segir Pirlo.

Hann hefur einu sinni tapað í úrslitaleik, en það var gegn Liverpool í Istanbúl 2005. Liverpool kom þá til baka eftir að lenda 3-0 undir í fyrri hálfleik og vann eftir vítaspyrnukeppni.

„Ég veit hvernig það er að vinna úrslitaleik Meistaradeildarinnar, en líka hvernig það er að tapa. Tapið í Istanbúl gegn Liverpol 2005 er ekki bara versta stundin á knattspyrnuferlinum heldur í lífi mínu,“ segir Andrea Pirlo.

Útsending frá úrslitaleik Juventus og Barcelona hefst klukkan 18.00 á Stöð 2 Sport annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×