Innlent

„Dómgreindarskortur“ að halda að fangar geti borgað fyrir umframréttindi

Birgir Olgeirsson skrifar
Sigurður Einarsson og Páll Winkel.
Sigurður Einarsson og Páll Winkel. Vísir/Daníel/AntonBrink
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir engin mannréttindi hafa verið brotin á Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Kaupþings, þegar honum var meinað um daglegan akstur á milli Kvíabryggju og Reykjavíkur á meðan réttarhöldum yfir honum stóð.

Páll Winkel heldur þessu fram í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins en Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, sakaði fangelsismálayfirvöld um að hafa brotið á Sigurði með því að neita að aka honum daglega á milli Kvíabryggju og Reykjavíkur á meðan réttarhöld stóðu yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur í markaðsmisnotkunarmáli gegn Kaupþingsmönnum.

Sjá einnig:„Fjárskortur er ekki gild afsökun stjórnvalds fyrir því að virða ekki mannréttindi”

Eins og kunnugt er situr Sigurður nú í fangelsi á Kvíabryggju vegna dóms sem hann hlaut í Al Thani-málinu. Fór hann fram á það við fangelsismálayfirvöld áður en aðalmeðferð hófst að hann yrði fluttur daglega úr fangelsinu til Reykjavíkur svo hann gæti setið réttarhöldin.

Þeirri beiðni hafnaði fangelsismálastjóri og bar fyrir sig skorti á fjármunum en bauð honum þess í stað að dvelja í fangaklefa á gæsluvarðhaldsganginum í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg.

Með þessu telur Gestur að réttindi skjólstæðings síns til að verjast hafi verið brotin en þau eru tryggð í 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um að allir eigi að njóta réttlátrar málsmeðferðar.

Páll seir í samtali við RÚV það ekki vera mannréttindabrot að synja refsifanga um bílstjóra og bíl til að aka í sex tíma á hverjum degi í fimm vikur. „Heldur fullkomlega eðlileg vinnubrögð. Það að einhverjum lögmanni hins vegar detti í hug að tilteknir fangar geti borgað fyrir umframréttindi er í besta falli dómgreindarskortur og til marks um þekkingarleysi á því hvernig okkar fullnustukerfi, og reyndar hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum virkar,“ hefur RÚV eftir Páli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×