Fótbolti

Guardiola: Messi er besti leikmaður allra tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Lionel Messi í gær.
Pep Guardiola og Lionel Messi í gær. Vísir/AFP
Pep Guardiola, þjálfari Bayern München líkti Lionel Messi við Pele og lýsti því yfir að besti leikmaður allra tíma hafi gert útslagið í undanúrslitaleikjunum við Barcelona.

Bayern München vann seinni undanúrslitaleikinn við Barcelona í gær en 3-0 sigur Börsunga í fyrri leiknum skilaði liðinu í úrslitaleikinn í Berlín.

„Hann er besti leikmaður allra tíma og ég líki honum við Pele. Ég vona að Barcelona vinni Meistaradeildina í fimmta sinn," sagði Pep Guardiola eftir leikinn en hann stýrði Barca-liðinu til sigurs í Meistaradeildinni 2009 og 2011.

Guardiola talaði bara um Pele eftir leikinn og minntist ekkert á Diego Maradona, landa Messi, sem margir telja vera þann sem Messi þarf að ýta úr hásætinu sem besti knattspyrnumaður sögunnar.

Lionel Messi skoraði ekki í gær því Neymar gerði bæði mörk spænska liðsins. Messi hefur engu að síður skorað 53 mörk á tímabilinu en hann skoraði „bara" 44 mörk á síðasta tímabili þar sem meiðsli og skattavandræði utan vallar voru að trufla hann.

„Hann er kominn aftur. Hann er á þeim stað sem hann var þegar ég hafði þau forréttindi að þjálfa hann," sagði Pep Guardiola en saman unnu þeir 14 titla á árunum 2008 til 2012.

„Það er engin spurning að hann er kominn aftur í sitt besta form," sagði Guardiola. Messi átt þátt í báðum mörkum Barcelona-liðsins í gær þótt að hann hafi ekki skorað eða gefið stossendingu. Mörkin eru hér fyrir neðan sem og markasýningin frá því í fyrri leiknum.

Lionel Messi hefur skorað 418 mörk í 510 leikjum fyrir félagslið og 45 mörk í 97 landsleikjum fyrir Argentínu.

Pele skoraði á sínum tíma 650 mörk í 694 leikjum fyrir félagslið og 77 mörk í 92 landsleikjum fyrir Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×