Enski boltinn

Arsenal græðir milljónir ef Barcelona vinnur Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Vermaelen og Luis Suarez.
Thomas Vermaelen og Luis Suarez. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Arsenal munu örugglega halda með Barcelona á móti Juventus í komandi úrslitaleik Meistaradeildarinnar því sigur spænska liðsins mun færa enska liðinu milljónir í kassann.

Arsenal seldi Thomas Vermaelen til Barcelona fyrir tímabilið fyrir fimmtán milljónir punda en í kaupsamninginum voru einnig margskonar bónusar.

Athyglisverðasti bónusinn samkvæmt heimildum Guardian var örugglega sá ef Thomas Vermaelen vinnur meistaradeildina með Barcelona. Heimildir Guardian herma að Barcelona þurfi þá að borga Arsenal þrjár milljónir punda eða 618 milljónir íslenskra króna.

Thomas Vermaelen hefur reyndar ekki spilað ennþá fyrir spænska félagið en hann hefur verið mikið meiddur síðan að hann mætti til Katalóníu. Sú staðreynd hefur ekki nein áhrif á umræddan bónus.

Thomas Vermaelen var á bekknum í fyrri leik Barcelona og Bayern München í undanúrslitum Meistaradeildarinnar. Hann er orðinn leikfær eftir átta mánaða fjarveru vegna meiðsla og gæti komið við sögu á lokakaflanum þar sem Börsungar geta enn unnið þrennuna.

Thomas Vermaelen er 29 ára gamall miðvörður sem var hjá Arsenal frá 2009 til 2014. Hann er fastamaður í belgíska landsliðinu.

Úrslitaleikur Barcelona og Juventus fer fram 6. júní næstkomandi en liðin munu þá mætast á Ólympíuleikvanginum í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×