Fótbolti

Xavi yfirgefur Barcelona í vor

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez fagnar hér titlinum með Andrés Iniesta.
Xavi Hernandez fagnar hér titlinum með Andrés Iniesta. Vísir/Getty
Xavi Hernandez, fyrirliði Barcelona, mun spila sinn síðasta leik fyrir félagið á þessu tímabili en faðir hans hefur sagt frá því að Xavi ætli að spila í Katar á næsta tímabili.

Joaquin Hernandez, faðir Xavi, var í útvarpsviðtali á Cope-stöðinni, þar sem hann sagði að nú væri rétti tíminn fyrir son hans að segja bless.

„Hann er heppinn að hafa fengið mjög gott tilboð frá Al Sadd sem gefur honum tækifæri að halda áfram að spila fótbolta, undirbúa þjálfaraferillinn og slaka líka aðeins á," sagði Joaquin Hernandez.

Xavi Hernandez er orðinn 35 ára gamall en hann hefur spilað 505 leiki fyrir Barcelona í spænsku deildinni og 764 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

Xavi hefur leikið með Barcelona frá ellefu ára aldri en hann fékk fyrsta tækifærið með aðalliði félagsins haustið 1998.

Xavi Hernandez varð á dögunum spænskur meistari í áttunda sinn með Barca og liðið á enn möguleika á því að kveðja hann með þrennunni því framundan eru úrslitaleikur spænska bikarsins á móti Athletic Bilbao og úrslitaleikur Meistaradeildarinnar á móti Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×