Fótbolti

Enrique: Suárez hefur verið stilltur hjá Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez hefur verið frábær fyrir Barcelona.
Luis Suárez hefur verið frábær fyrir Barcelona. vísir/getty
Luis Enrique, þjálfari Barcelona, hrósar Luis Suárez í hástert fyrir framkomu sínan innan sem utan vallar hjá félaginu.

Suárez kom til Barcelona í fjögurra mánaða banni fyrir að bíta Giorgio Chiellini á heimsmeistaramótinu í Brasilíu, en það var í þriðja sinn sem hann bítur mótherja sinn.

„Það sem við vinnum í saman er á milli okkar, en ég vil tjá mig aðeins um framkomu hans og hegðun,“ sagði Enrique á blaðamannafundi í dag.

„Hann hefur gert mistök á vellinum en hjá okkur hefur hann ekki gert nein mistök. Ég skil hvernig honum líður inn á fótboltavellinum, en hjá Barcelona hefur hann sýnt mikla sjálfstjórn og við erum mjög ánægðir með hann,“ segir Enrique.

Suárez var lengi í gang hjá Barcelona en hefur verið frábær undanfarna mánuði. Hann er búinn að skora þrettán mörk og gefa þrettán stoðsendingar í deildinni þar sem Barcelona er á toppnum.

MSN-þríeykið komst yfir 100 marka múrinn á dögunum en Barcelona getur enn unnið þrennuna; deild, bikar og Meistaradeildina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×