Handbolti

Jóhann: Aðeins notað öxlina í að borða og spenna á mig belti

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhann Gunnar Einarsson.
Jóhann Gunnar Einarsson. vísir/stefán
Það er enn óvissa um það hvort Jóhann Gunnar Einarsson geti spilað með Aftureldingu í kvöld er baráttan um Íslandsmeistaratitilinn hefst. Fyrsti leikur Aftureldingar og Hauka verður þá spilaður í Mosfellsbæ.

„Ég stefni á að spila en það kemur ekki í ljós fyrr en í kvöld hvort ég geti það," segir Jóhann Gunnar en hann hefur verið að glíma við erfið meiðsl í öxl og gat lítið beitt sér í síðustu leikjunum gegn ÍR.

Hann hefur aftur á móti fengið góða hvíld enda fór síðasti leikur Aftureldingar og ÍR fram þann 26. apríl og þá spilaði Jóhann nánast ekki neitt.

„Ég hef ekki notað öxlina í annað en að borða og spenna á mig belti. Ég veit í raun ekkert hvernig öxlin er. Ég er búinn að fara í eina sprautu og svo fer ég í meðferð rétt fyrir leik og svo verður að koma í ljós hvernig ég er."

Skyttan örvhenta er í lykilhlutverki hjá Aftureldingu og það væri mikill missir fyrir liðið ef Jóhann getur ekki spilað. Það verður tekinn ákvörðun um það rétt fyrir leik.

„Ef ég get sent boltann verð ég nokkuð kátur og reyni að hjálpa til. Það var orðið þannig að ég gat ekki sent boltann. Ég er eiginlega meira spenntur fyrir því að komast að hvernig öxlin er en leiknum. Ég hef eiginlega ekki getað spáð neitt í honum."

Leikur liðanna verður í beinni textalýsingu á Vísi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×