Handbolti

Egill verður eftirmaður Damgaard hjá Team Tvis Holstebro

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egill Magnússon er mjög efnileg skytta.
Egill Magnússon er mjög efnileg skytta. Vísir/Ernir
Egill Magnússon, 19 ára skytta úr Stjörnunni, hefur gert samning við danska úrvalsdeildarliðið Team Tvis Holstebro, en hann vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með Stjörnunni í Olís-deild karla í vetur.

Team Tvis Holstebro missti á dögunum markahæsta leikmann sinn, Michael Damgaard, til Geis Sveinssonar í SC Magdeburg, en það verður ekki auðvelt að fylla í skarð Damgaard sem varð annar markahæsti leikmaður dönsku deildarinnar í vetur.

„Hann er að gera marga hluti rétt í dag en hann getur orðið enn betri og við ætlum að hjálpa honum til þess. Við þurfum að vinna í líkamlega þættinum og svo þarf hann líka að læra inn á danska handboltann sem og að læra málið. Við erum samt að tala um mjög, mjög spennandi leikmann," sagði þjálfarinn Patrick Westerholm í fréttatilkynningu frá  Team Tvis Holstebro.

Egill Magnússon skoraði 137 mörk í 24 leikjum með Stjörnunni í Olís-deildinni þar á meðal 17 mörk í leik á móti deildarmeisturum Vals í desember.

„Við erum að tala um leikmann sem mörg félög í Danmörku og Þýskalandi höfðu áhuga á. Við erum mjög ánægðir með að hann valdi TTH. Við erum þekktir fyrir að vera félag sem hjálpar leikmönnum að þroskast og bæta sig sem handboltamenn. Gott dæmi um það er Michael Damgaard og ég er viss um að við náum einnig góðum árangri með Egil," sagði Jørgen Hansen hjá Team Tvis Holstebro.

„Það hefur alltaf verið draumur minn að komast í atvinnumennsku og ég er mjög ánægður með að fá tækifæri hjá Team Tvis Holstebro. Ég er viss um að TTH sé rétta félagið fyrir mig á þessum tíma. Félagið hefur sýnt að það getur hjálpað leikmönnum að bæta sig og það er frábær æfingaaðstaða hjá félaginu. Þjálfarinn hefur trú á mér og ég er viss að ég kemst á næsta stig hér," sagði Egill í umræddri fréttatilkynningu.


Tengdar fréttir

HM-hópur U-21 árs liðsins valinn

Gunnar Magnússon og Reynir Þór Reynisson, þjálfarar U-21 árs liðs karla, tilkynnti í dag hópinn fyrir komandi leiki í forkeppni HM.

Sautján marka maðurinn: Allt sem ég gerði virtist virka

"Við klúðruðum dauðafærum, það er það sem fór með leikinn. Hann lokaði vel í dauðafærum,“ sagði Egill Magnússon stórskyttan unga í liði Stjörnunnar en hann skoraði 17 mörk í leiknum gegn Val. Það dugði ekki til fyrir Garðbæinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×