Íslenski boltinn

Præst á eðlilegum batavegi | Óviss um Atla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli Jóhannsson í leik með Stjörnunni.
Atli Jóhannsson í leik með Stjörnunni. Vísir/Pjetur
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Íslandsmeistara Stjörnunnar, segir að hann verði með flesta sína leikmenn heila fyrir leik liðsins gegn ÍA í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla á sunnudaginn.

Michael Præst og Jóhann Laxdal slitu báðir krossaband í hné síðasta sumar. Præst í byrjun ágúst og Jóhann í byrjun september.

„Þeir eru á réttri leið en þetta eru erfið meiðsli og yfirleitt gert ráð fyrir 6-12 mánaða endurhæfingu,“ sagði Rúnar Páll.

Sjá einnig: Spá Fréttablaðsins og Vísis: Stjarnan hafnar í 3. sæti

„Præst lítur mjög vel út en ég reikna samt með því að hann verði ekki tilbúinn fyrr en í júní og Jóhann svo mánuði síðar. Það gæti þó verið einhverjum dögum eða vikum fyrr eða seinna,“ sagði Rúnar Páll.

Þá hafa þeir Atli Jóhannsson og Kári Pétursson hafa verið að glíma við meiðsli og óvíst hvenær þeir verða klárir.

„Atli er með ónýtar mjaðmir og hefur í raun verið frá í langan tíma. Ég veit ekki hvernig framhaldið lítur út hjá honum,“ segir Rúnar Páll.

Þar fyrir utan hefur gengið á ýmsu í leikmannahópi Stjörnunnar en veikindi herjuðu á stóran hóp leikmanna og sagði Rúnar Páll að það hafi verið fámennt á æfingu liðsins á þriðjudag.

Sjá einnig: Rúnar Páll og Brynjar Gauti fengu lungnabólgu

„Garðar [Jóhannsson] er enn veikur en allir aðrir eru væntanlegir á æfingu á eftir. Það er jákvætt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×