Fótbolti

Spila án fyrirliðans á Nývangi á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva.
Thiago Silva. Vísir/AFP
Áföllin halda áfram að dynja á Paris Saint-Germain og liðið mætir vængbrotið til leiks í seinni leikinn á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Brasilíumaðurinn Thiago Silva, fyrirliði PSG-liðsins, missir af seinni leiknum vegna meiðsla en hann fór meiddur af velli á 21. mínútu í fyrri leiknum.

Thiago Silva tognaði aftan í læri í fyrri leiknum og Barcelona var komið yfir í 1-0 þegar hann þurfti að fara af velli.

Thiago Silva var í hópnum til að byrja með en PSG tilkynnti breytingu á honum á heimasíðu sinni í dag þar sem fram kemur að Thiago Silva sé ekki leikfær.

Barcelona vann fyrri leikinn 3-1 á heimavelli Paris Saint-Germain en franska liðið lék þar án Zlatan Ibrahimovic sem tók þá út leikbann. Zlatan Ibrahimovic verður með í leiknum annað kvöld.

Thiago Silva ferðast ekki einu sinni með liðinu til Barcelona því hann mun halda áfram í meðferð á Ooredoo-æfingasvæði PSG.

Thiago Motta mun einnig missa af leiknum vegna meiðsla en hann spilaði heldur ekki fyrri leiknum. Bakvörðurinn Serge Aurier tekur út leikbann á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×