Erlent

Lést eftir að hafa keypt megrunartöflur á netinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Elois Parry.
Elois Parry. MYnd/Lögreglan í West Mercia
Hin 21 árs gamla Eloise Parry lést á sjúkrahúsi fyrr í mánuðinum eftir að hafa tekið megrunartöflur sem hún keypti á netinu. Verið er að framkvæma tilraunir á töflunum en grunur leikur á að þær innihaldi dinitrophenol, eða DNP, sem er eitrað efni sem notað er í iðnaði.

Lögreglan segist hafa áhyggjur af uppruna taflanna og rannsakar nú hvar töflurnar voru keyptar og hvar þær voru auglýstar.

„Skýrsla réttarmeinafræðingsins mun segja til um nákvæm dánarorsök Eloise en við hvetjum almenning til að fara varlega þegar lyf og fæðubótarefni eru keypt á internetinu,“ hefur Sky News eftir Jennifer Mattinson hjá lögreglunni í West Mercia.

„Efni frá óskráðum heimasíðum gæti ógnað heilsu ykkar, þar sem þau gætu verið skaðleg, útrunnin eða fölsuð.“ Á vef Guardian er haft eftir móður Eloise að læknar hafi sagt að banvænn skammtur væri tvær töflur. Eloise tók hins vegar átta töflur.

Á vef BBC segir að móðir Elois hafi ekki vitað af töflunum fyrr en eftir á. Hún biður fólk um að halda sig frá lyfjum sem innihalda DNP. Elois gekk sjálf inn á sjúkrahúsið en þegar hún hafði farið í efnagreiningu urðu læknarnir órólegir.

„Læknarnir áttu ekki möguleika á að bjarga lífi hennar, því miður.“ Reynt var að kæla Elois en ekkert gekk og móðir hennar segir að hún hafi brunnið upp innan frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×