Enski boltinn

Gerðu læknar Real Madrid mistök?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Benzema fær byltu í leiknum gegn Atletico.
Benzema fær byltu í leiknum gegn Atletico. Vísir/Getty
Svo virðist sem að Karim Benzema, sóknarmaður Real Madrid, hafi fengið ranga greiningu á meiðslum sínum eftir fyrri leikinn gegn Atletico Madrid í Meistaradeild Evrópu í síðustu viku.

Benzema var tekinn af velli í síðari hálfleik í leiknum á þriðjudag fyrir rúmri viku en honum lauk með markalausu jafntefli. Liðin mætast að nýju á heimavelli Real Madrid í kvöld.

Daginn eftir leik fór Benzema í skoðun hjá lækni Real Madrid sem sá ekkert sem benti til þess að hann væri alvarlega meiddur. Hann reyndi að æfa á föstudag en fann fyrir verk í hnénu og var umsvifalaust kippt út.

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, sagði fyrir leik liðsins gegn Malaga um helgina að Benzema myndi missa af honum en að hann reiknaði með honum fyrir leikinn gegn Atletico í Meistaradeildinni.

Í gær var svo tilkynnt að nánari skoðun á hnémeiðslum Benzema hefði leitt í ljós að hann væri tognaður á liðbandi - viku eftir að hann spilaði gegn Atletico.

Ólíklegt er að hann hefði hvort eð er náð leiknum í kvöld en engu að síður fór dýrmætur tími í súginn sem gæti reynst Real Madrid á lokaspretti tímabilsins.

Meiðsli Benzema eru áfall fyrir Real Madrid þar sem bæði Gareth Bale og Luka Modric meiddust í leiknum gegn Malaga. Þá verður Marcelo í leikbanni í kvöld.

Ancelotti vildi ekki gera lítið úr málinu á blaðamannafundi í gær. „Hann er með tognun. Það var enginn misskilningur. Hann er bara með nokkuð alvarleg meiðsli og hefur ekki náð að jafna sig.“


Tengdar fréttir

Bale frá í þrjár vikur

Missir af stórslag Real Madrid og Atletico Madrid í Meistaradeildinni í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×