Íslenski boltinn

Guðni Bergs og Óli Þórðar notuðu sama tannbursta

Guðni Bergsson átti frábæran knattspyrnuferil en hann lék með Tottenham og Bolton í enska boltanum.

Guðni steig um borð í Akraborgina hjá Hirti Hjartarsyni á X-inu í gær þar sem farið var um víðan völl í ítarlegu spjalli.

„Ég var ungur þegar ég samdi við Tottenham og ég hræddist ekkert að fara þangað nema síður væri. Ég var hundfúll þegar ég var ekki í liðinu," sagði Guðni en hann fór út 23 ára gamall.

Hjá Spurs spilaði Guðni með sjálfum Paul Gascoigne.

„Gazza er gæðablóð og yndislegur strákur. Hann var meinstríðinn og það lentu allir í honum. Breski húmorinn gekk svolítið út á þetta þarna," sagði Guðni og rifjaði einnig upp þegar Gazza dró hann í dótabúðir.

Þegar Guðni var í landsliðinu þá var Ólafur Þórðarson herbergisfélagi hans.

„Óli er ljúfur þegar hann slakar á og er ekki með derring. Undir þessu hrikalega, hráa yfirborði er gull af manni. Það var venjulega kósý hjá okkur þó svo framan af höfum við verið svolítið að slást. Tókum svona gamnislagi. Óli vildi venjulega halda áfram þegar ég var orðinn þreyttur," segir Guðni en þeir voru herbergisfélagar í rúm tíu ár. Þeir voru orðnir afar nánir.

„Ef maður gleymdi tannburstanum þá var það ekkert mál. Við notuðum bara sama tannburstann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×