Fótbolti

Dani Alves með buxurnar á hælunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves fagnar hér með Lionel Messi og Luis Suarez.
Dani Alves fagnar hér með Lionel Messi og Luis Suarez. Vísir/Getty
Samningaviðræður Dani Alves og Barcelona ganga illa og brasilíski bakvörðurinn notaði óvenjulega leið til þess að tilkynna það að hann væri væntanlega á förum frá spænska stórliðinu.

Dani Alves er orðinn 31 árs gamall en hann hefur spilað hjá Barcelona frá árinu 2008 og unnið sextán titla með liðinu. Hann hefur verið fastamaður í hægri bakvarðarstöðunni nær allan þennan tíma.

Dani Alves setti mynd af sér inn á Instagram-síðu sína þar sem hann er með buxurnar á hælunum. Undir henni stóð:  „Lífið er fallegur leikur og ég er lítill leikmaður," sagði Dani Alves.

„Samningaviðræðurnar eru á enda ef þeir segja að þetta sé þeirra lokatilboð. Það er engin skynsemi í þessu. Það er erfitt að átta sig á þessu því það er komin apríl og Barcelona hefur ekki enn endurnýjað samninginn. Dani er leiður yfir þessu," sagði umboðsmaður Dani Alves, Dinorah Santana, við ESPN.

Barcelona bauð Dani Alves nýjan þriggja ára samning en viðræðurnar strönduðu á klausu um að hann yrði að spila sextíu prósent leikjanna til að halda honum gangandi. Það var Dani Alves ekki sáttur við og hann virðist vera að ýja að því á myndinni á Instagram-síðu sinni að Barcelona sýni honum ekki þá virðingu sem hann telur sig eiga skilið.

„Við höfum rætt við önnur félög og þeir hafa allt aðra sýn á þetta en núverandi liðið hans. PSG hefur ekki komið með tilboð en við höfum fengið tilboð frá tveimur öðrum félögum," sagði Dinorah Santana.

'Life is a great game and I'm a small player' #goodvibealways #lovelife

A photo posted by DanialvesD2 My Twitter (@danid2ois) on




Fleiri fréttir

Sjá meira


×