Fótbolti

Enrique: PSG getur unnið án Zlatan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Enrique, þjálfari Barcelona.
Luis Enrique, þjálfari Barcelona. Vísir/Getty
PSG mætir Barcelona í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu annað kvöld en þjálfari Börsunga, Luis Enrique, reiknar ekki með auðveldri viðureign fyrir sína menn.

Zlatan Ibrahimovic verður í banni hjá PSG en Enrique segir að það komi ekki endilega að sök fyrir Parísarliðið.

„PSG er án nokkurra sterkra leikmanna en við skulum ekki gleyma því að þeir unnu okkur þegar Zlatan var ekki með,“ sagði hann og vísaði til leik liðanna í riðlakeppninni í haust þar sem PSG vann Barcelona á heimavelli, 3-2.

„Við fengum mörg færi í þessum leik og spiluðum vel. En við töpuðum. Það er því aldrei hægt að reikna með neinu fyrirfram,“ sagði Enrique en auk Zlatan verður Marco Verratti í banni. Þá er David Luiz frá vegna meiðsla og Thiago Motta er tæpur.

„Við þurfum að bæta varnarleikinn okkar, svo mikið er ljóst. Þeir eru með afar sterkan leikmannahóp og sýndu enn hversu öflugir þeir eru með því að slá Chelsea úr leik í 16-liða úrslitunum.“

„Þetta verður opin rimma því liðin eru reyndar nokkuð áþekk,“ sagði Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×