Körfubolti

Ívar hættir með kvennalið Hauka

Árni Jóhannsson skrifar
Vísir/Andri Marinó
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, greindi frá því í kvöld að hann væri hættur þjálfun kvennaliðs félagsins en hann hefur þjálfað bæði karla- og kvennaliðið í vetur.

Haukar féllu úr leik í úrslitakeppni Domino's-deildar kvenna eftir 3-0 tap fyrir Keflavík í undanúrslitunum.

„Mínu hlutverki með þessar stelpur er lokið og nýr þjálfari tekur við en ég held að ég skili af mér góðu búi eftir þetta tímabil,“ sagði Ívar í kvöld.

Ívar var spurður hvort sú ákvörðun að hætta með kvennaliðið væri óvænt.

„Nei ég ákvað það um jólin að það væri of mikið að vera með tvö lið og það færi ekki saman. Bæði lið komast í undanúrslit sem er náttúrulega frábær árangur en mér finnst það ekki fara saman að vera með bæði liðin.“

Karlalið Hauka stendur í ströngu þar sem að liðið leikur gegn Tindastóli í fjórða leik undanúrslitarimmu liðanna annað kvöld. Staðan í henni er 2-1 fyrir Tindastóli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×