Fótbolti

Raiola: Skandall að Zlatan fái ekki að spila í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimović.
Zlatan Ibrahimović. Vísir/Getty
Franska liðið Paris Saint-Germain tekur á móti Barcelona í kvöld í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta en PSG verður án sinnar stærstu stjörnu í leiknum.

Mino Raiola, umboðsmaður Zlatan Ibrahimović sem og þeirra Paul Pogba, Mario Balotelli og Romelu Lukaku, lætur UEFA heyra það í viðtali við netsíðuna Le10sport.com.

„Það er skandall að Zlatan fái ekki að spila á móti Barcelona," sagði Mino Raiola í viðtalinu.

Zlatan Ibrahimovic fékk rautt spjald í seinni leiknum á móti Chelsea í sextán liða úrslitunum sem var mjög harður dómur.

Zlatan Ibrahimovic hefði getað fengið tveggja leikja bann eins og vaninn er með beint rautt spjald en UEFA ákvað að bannið væri bara einn leikur eftir áfrýjun UEFA.

„Zlatan gerði ekkert rangt í þessari tæklingu. Það var dómarinn sem gerði mistök,"

Hollenski dómarinn Björn Kuipers reif upp rauða spjaldið fyrir brot Zlatans á Brasilíumanninum Oscar en hér fyrir neðan má sjá að þetta er mjög harður dómur.

„Þegar leikmaður fær rautt spjald þá á hann að fara í tveggja leikja bann. UEFA kom með einhvers konar málamiðlun. Það eru samt engin rök fyrir því að dæma hann í bann. UEFA átti að viðurkenna það að dómarinn gerði mistök því það er mikilvægt að geta viðurkennt mistök sín," sagði Mino Raiola.

Leikur Paris Saint-Germain og Barcelona hefst klukkan 18.45 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×