Handbolti

Deildarmeistararnir hafa tapað fyrsta leik fjögur ár í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson í leiknum í gær.
Kári Kristjánsson í leiknum í gær. Vísir/Stefán
Deildarmeistarar Valsmanna steinlágu á heimavelli í gærkvöldi í fyrsta leik sínum í undanúrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handbolta.

Þetta var fjórða árið í röð þar sem deildarmeistararnir byrja undanúrslitin á tapi þar af hafa þeir tapað stórt (6 mörk eða meira) í þremur af þessum fjórum leikjum.

Haukarnir unnu átta marka sigur á Hlíðarenda í gær en þeir ættu að þekkja vel þá stöðu sem Valsmenn voru í sem deildarmeistarar á heimavelli í fyrsta leik.

Haukar unnu deildarmeistaratitilinn þrjú ár í röð frá 2012 til 2014 en töpuðu öll þrjú árin fyrsta leik sínum í undanúrslitum.

Fyrsta árið töpuðu Haukarnir öllum leikjum sínum og komust ekki í úrslitin en undanfarin tvö ár hefur Haukaliðið komið til baka þrátt fyrir tap í fyrsta leik sínum.

Síðustu deildarmeistararnir til að vinna fyrsta leik í undanúrslitum voru Akureyringar vorið 2011 sem unnu þá 26-24 sigur á HK og undanúrslitaeinvígið á endanum 2-1.

Þá þurfti bara að vinna tvo leiki en frá því að þrjá sigra þurfti í undanúrslitum úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í handbolta þá hafa deildarmeistararnir tapað fyrsta leik.



Deildarmeistararnir og fyrsti leikur í undanúrslitum:

2012 Haukar

6 marka tap fyrir HK (24-30)

- HK vann einvígið 3-0

2013 Haukar

1 marks tap fyrir ÍR (23-24)

- Haukar unnu einvígið 3-1

2014 Haukar

7 marka tap fyrir FH (25-32)

- Haukar unnu einvígið 3-2

2015 Valur

8 marka tap fyrir Haukum (24-32)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×