Körfubolti

Fyrstu Íslandsmeistararnir í átta ár sem komast aftur í lokaúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Gunnarsdóttir fór úr axlarlið í leik eitt en spilaði bæði leik þrjú og leik fjögur.
Berglind Gunnarsdóttir fór úr axlarlið í leik eitt en spilaði bæði leik þrjú og leik fjögur. Vísir/Vilhelm
Snæfellskonur tryggðu sér í gær sæti í lokaúrslitum Dominos-deildar kvenna og mæta þar Keflavíkurkonum sem sópuðu út Haukum tveimur dögum áður. Þetta eru tvö efstu liðin í deildinni og framundan er spennandi úrslitaeinvígi.

Snæfellsliðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í fyrravor og fær nú aftur tækifæri til að spila um titillinn en það hafði ekki gerst í heil átta ár að meistararnir höfðu staðið pressuna í undanúrslitunum.

Íslandsmeisturunum hjá stelpunum hefur nefnilega gengið afar illa í titilvörninni undanfarin ár og þetta er í fyrsta sinn frá 2007 sem meistarar spila til úrslita árið eftir. Haukakonur komust í úrslitin tvö ár í röð frá 2006 til 2007 með Helenu Sverrisdóttur í fararbroddi og unnu Íslandsmeistaratitilinn í bæði skiptin.

Snæfellsliðið vann þrjár af fjórum leikjum sínum í undanúrslitaeinvíginu á móti bikarmeisturum Grindavíkur en á árunum 2008 til 2014 þá unnu ríkjandi Íslandsmeistarar aðeins 1 af 19 leikjum sínum í úrslitakeppni.

Úrslitaeinvígið hefst í Hólminum á miðvikudagskvöldið en Keflavíkurkonur eru komnar í úrslitin í sautjánda sinn og hafa unnið 9 af 10 leikjum sínum í undanförnum þremur úrslitaeinvígum sínum þar af 3-1 sigur á KR þegar þær voru síðast í úrslitunum árið 2013.

Gengi Íslandsmeistara árið eftir undanfarin ár:

2007 Haukar (Íslandsmeistari)

2008 Haukar (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir Keflavík)

2009 Keflavík (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir KR)

2010 Haukar (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir KR)

2011 KR (Undanúrslit, 1-3 tap fyrir Keflavík)

2012 Keflavík (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir Haukum)

2013 Njarðvík (Komst ekki í úrslitakeppnina)

2014 Keflavík (Undanúrslit, 0-3 tap fyrir Haukum)

2015 Snæfell (Lokaúrslit)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×