Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 21-19 | Giedrius magnaður í öðrum sigri Hauka á Val

Ingvi Þór Sæmundsson í Schenker-höllinni að Ásvöllum skrifar
Einar Pétur Pétursson, leikmaður Hauka.
Einar Pétur Pétursson, leikmaður Hauka. vísir/stefán
Haukar eru komnir í 2-0 í einvíginu við Val í undanúrslitum Olís-deildar karla í handbolta eftir tveggja marka sigur í Schenker-höllinni í dag. Lokatölur 21-19, Haukum í vil.

Haukar geta tryggt sér sæti í lokaúrslitum með sigri í þriðja leik liðanna í Vodafone-höllinni á þriðjudaginn.

Leikurinn í dag var allt öðruvísi en fyrsti leikur liðanna á fimmtudaginn sem Haukar unnu örugglega, 24-32. Valsmenn mættu mun tilbúnari til leiks og spiluðu betur en í fyrsta leiknum þótt þeir séu enn að spila talsvert undir getu.

Varnirnar voru sterkar í leik dagsins og markverðirnir í góðum gír. Giedrius Morkunas átti sérstaklega góðan dag í marki Hauka en þessi öflugi markvörður varði alls 22 skot, eða 54% þeirra skota sem hann fékk á sig í leiknum.

Haukarnir byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti í vörninni og fyrir aftan hana var Giedrius í miklum ham. Litháinn varði alls 13 skot í fyrri hálfleik þar af 2-3 skot í dauðafærum eftir hraðaupphlaup Valsmanna.

Sóknarleikur Hauka var ekki í sama gæðaflokki og varnarleikurinn en heimamenn voru oft á tíðum ótrúlegir klaufar í sókninni.

Alls töpuðu Haukar boltanum 13 sinnum í fyrri hálfleik og í ljósi þess var gátu þeir vel við unað að vera aðeins marki undir í hálfleik, 8-9.

Sóknarleikur Valsmanna var heldur ekki góður en skánaði heldur eftir að Ómar Ingi Magnússon kom inn í skyttustöðuna hægra megin.

Selfyssingurinn ungi hefur gríðarlega gott auga fyrir spili og er afar lunkinn skotmaður. Flest það sem gerðist í sóknarleik Valsmanna gerðist í kringum þennan 18 ára strák sem hlýtur að vera visst áhyggjuefni fyrir þjálfara Vals.

Valsmenn unnu sig hægt og bítandi inn í fyrri hálfleikinn eftir erfiða byrjun og voru sterkari aðilinn seinni hluta hans.

Miklu munaði um að Stephen Nielsen náði sér miklu betur á strik en í leiknum á fimmtudaginn en sá danski varði átta skot í fyrri hálfleik og 12 alls.

Haukar skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks en þá var komið að Vigni Stefánssyni sem kom inn á í vinstra hornið í hálfleik. Hann skoraði næstu þrjú mörk Vals og sá til þess að Haukarnir kæmust ekki á enn meira skrið.

Sóknarleikur Vals var annars stirður og þeir áttu í mestu erfiðleikum með að koma almennilegu skoti á markið. Frændurnir frá Akureyri, Geir Guðmundsson og Guðmundur Hólmar Helgason, náðu sér engan veginn á strik en skotnýting þess síðarnefnda var skelfileg; aðeins tvö af 14 skotum hans fóru í markið.

Haukarnir náðu smám saman betri tökum á sóknarleiknum og komust fjórum mörkum yfir, 17-13, þegar Adam Haukur Baumruk þrumaði boltanum í netið.

Valsmenn voru þó ekki af baki dottnir og skoruðu fjögur mörk af næstu fimm og minnkuðu muninn í eitt mark, 18-17.

Elías Már Halldórsson létti pressunni af Haukum þegar hann skoraði úr hægra horninu áður en Ómar Ingi minnkaði á ný í eitt.

Aftur skiptust liðin á mörkum en Valsmenn fengu gullið tækifæri til að jafna metin á lokamínútunni þegar Sveinn Aron Sveinsson fór inn úr hægra horninu. Hann vippaði boltanum yfir Giedrius en því miður fyrir hann og Valsmenn fór boltinn í stöngina.

Haukar spiluðu síðustu mínútuna af skynsemi og Árni Steinn Steinþórsson kláraði dæmið endanlega þegar hann skoraði 21. mark heimamanna. Lokatölur 21-19, Haukum í vil sem eru komnir í kjörstöðu til að tryggja sér sæti í lokaúrslitum þriðja árið í röð.

Janus Daði Smárason var markahæstur í liði Hauka með fimm mörk en Tjörvi Þorgeirsson kom næstur með fjögur.

Vignir og Ómar Ingi skoruðu báðir fimm mörk fyrir Val.

Patrekur: Frammistaða Giedriusar kemur mér ekki á óvart

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, sagði leikinn í dag hafa verið gjörólíkan þeim á fimmtudaginn sem Hafnfirðingar unnu örugglega, 24-32.

„Já, já. Eins og ég sagði við strákana í hálfleik, þá þróast leikirnir stundum svona. Markvarslan frá frábær báðum megin og varnirnar þéttir,“ sagði Patrekur.

„Við urðum bara að taka þátt í þeim leik. Mér fannst við ekki alveg tilbúnir í það til að byrja með en þegar leið á vorum við klárir í þennan slagsmálaleik.

„Þetta var fastur leikur og alveg á grensunni en ég fer ekki að væla yfir því.

„Þetta var hörkurimma tveggja góðra liða, mér fannst Valsararnir flottir og þetta er engan veginn búið,“ sagði Patrekur sem hrósaði Giedriusi Morkunas, markverði Hauka, sem átti magnaðan leik.

„Ég held að hann sé góð fyrirmynd fyrir aðra handbolta- og íþróttamenn. Hann leggur sig 100% fram á öllum æfingum.

„Hann hefur átt fá slaka leiki í vetur og hann er fyrirmyndar persónuleiki og með rétt viðhorf til íþróttarinnar. Það kemur mér ekkert á óvart að hann sé að standa sig vel,“ sagði Patrekur sem býst við svipuðum leik á þriðjudaginn þegar liði mætast í þriðja sinn.

„Ég á von á nákvæmlega svona leik eins og í dag, þar sem verður barist um hvern einasta bolta og við ætlum að vera klárir í það.

„Mér finnst gaman að svona leikjum,“ sagði Patrekur að lokum.

Elvar: Skutum illa í leiknum

Elvar Friðriksson, leikmaður Vals, var að vonum súr í broti eftir tapið fyrir Haukum í dag.

„Þetta eru talsverð vonbrigði. Þetta var allt öðruvísi stemmning í þessum leik en á fimmtudaginn,“ sagði Elvar.

„Við börðumst eins og ljón og það gekk vel framan af en svo datt botninn úr þessu í seinni hálfleik og við náðum ekki að koma til baka.“

Giedrius Morkunas, markvörður Hauka, átti stórleik og gerði leikmönnum Vals erfitt fyrir. Elvar vill þó meina að skot Valsmanna hafi ekki alltaf verið þau bestu.

„Hann var fínn í markinu en ég vil meina að við höfum skotið mikið beint á hann og í markmannshornið.

„Með fullri virðingu fyrir honum, þá vorum við að skjóta illa,“ sagði Elvar sem var þó ánægður með varnarleik og markvörslu Vals í dag.

„Tuttugu og eitt mark fengið á sig á að duga til sigurs. Þetta lá í sóknarleiknum hjá okkur. Við þurfum að klára færin betur.“

Þrátt fyrir tvo tapleiki hefur Elvar trú á því að Valsmenn geti snúið dæminu sér í vil en næsti leikur liðanna er í Vodafone-höllinni á þriðjudaginn.

„Já, alveg klárlega. Þetta gefur okkur enn meiri kraft og við komum enn grimmari til leiks á þriðjudaginn,“ sagði Elvar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×