Enski boltinn

Conte skilur landsliðsdyrnar eftir opnar fyrir Balotelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Conte, landsliðsþjálfari Ítalíu, segir að hann sé ekki búinn að loka á þann möguleika að menn eins og Mario Balotelli spili aftur með landsliðinu.

Balotelli hefur átt erfitt uppdráttar með Liverpool í vetur og var ekki valinn í landslið Ítalíu sem mætti Englandi í vináttulandsleik í gær. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og skoraði Graziano Pelle mark Ítala.

„Ég hef auga á öllu því sem deildirnar hafa upp á að bjóða. Ég sá Southampton spila gegn Liverpool og Pelle var sá eini sem spilaði. Balotelli og [Fabio] Borini voru á bekknum,“ sagði Conte á blaðamannafundi eftir leikinn í gær.

„Landsliðsdyrnar eru opnar fyrir alla þá sem sýna með frammistöðu sinni að þeir viti hvað þarf til að spila með ítalska landsliðinu. Ég vona að Balotelli geti sýnt Liverpool verulegan stuðning og spilað meira. Ef það gerist þá á hann möguleika á að spila með landsliðinu,“ sagði Conte.

Balotelli hefur skorað fjögur mörk í 25 leikjum í öllum keppnum með Liverpool í vetur, þar af eitt í ensku úrvalsdeildinni. Hann var síðast í byrjunarliði Liverpool í deildinni í 2-1 tapi liðsins gegn Chelsea þann 8. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×