Erlent

Áhersla lögð á að finna flugrita vélarinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Vélin missti skyndilega mikla hæð en neyðarkall barst hins vegar aldrei frá stjórnendum vélarinnar.
Vélin missti skyndilega mikla hæð en neyðarkall barst hins vegar aldrei frá stjórnendum vélarinnar. Vísir/AFP
Björgunarsveitir hófu aftur störf í morgun í frönsku Ölpunum þar sem farþegaþota Germanwings fórst í gær með 150 manns innanborðs. Talið er að björgunaraðgerðir muni standa í marga daga.

Rannsókn er hafin á orsökum slyssins og er verið að kanna hvort gáleysi flugmanna hafi verið um að kenna. Vélin missti skyndilega mikla hæð en neyðarkall barst hins vegar aldrei frá stjórnendum vélarinnar.

Búið er að finna annan flugrita vélarinnar, en talsmaður franska innanríkisráðuneytisins segir að hljóðupptaka úr flugstjórnarklefanum hafi eitthvað skemmst. Þó væri hægt að sækja einhverjar upplýsingar úr flugritanum.

Áhersla verður í dag lögð á að finna hinn flugrita vélarinnar.

Leiðtogar Þýskalands, Frakklands og Spánar ætla að heimsækja svæðið síðar í dag en talið er að 67 þeirra sem fórust hafi verið Þjóðverjar, þar á meðal sextán ungmenni á leið heim úr skólaferðalagi.

Fjörutíu og fimm þeirra sem voru um borð bera spænsk eftirnöfn en í vélinni var einnig fólk frá Ástralíu, Danmörku, Tyrklandi, Hollandi, Belgíu og Bretlandseyjum, að því er talið er.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×