Harmageddon

#FreeTheNipple er byltingarkennt af mörgum ástæðum

Anna Tara skrifar
Margir eru ósammála aðferðum #FreeTheNipple byltingarinnar. Þau hafa áhyggjur af því að stelpurnar muni sjá eftir þessu einn daginn og að birting myndanna sé nákvæmlega það sem strákar vilji. Að konur séu að setja valdið í hendur karla með þessum hætti. Hér er komin fram ný kynslóð femínista sem mörgum þykir ruglingsleg og mótsagnakennd. Það er að konur séu að gera akkúrat það sem strákarnir vilji að þær geri. Femínistar sem mótmæla hlutgervingu kvenna en birta svo myndir af brjóstunum á sér. Hafa konur möguleika á að vera kynferðislegar (þessi bylting er þó ekki kynferðisleg) án þess að vera kúgaðar af körlum?

Berun brjósta er útsetning fyrir nauðgun (slutshaming):

Sumir eru þeirrar skoðunar að ef konur birta mynd af brjóstunum á sér sé það þeim að kenna að einhver sýni þeim perraskap. Setjum ábyrgðina á réttan stað. Það er réttmæt krafa að birta myndir af brjóstunum sínum án þess að þurfa líða perraskap. Með þessu áframhaldi mun það einn daginn þykja ekki aðeins réttmæt heldur einnig sjálfsögð krafa. Einn göfugasti tilgangur þessarar byltingar er að ógilda þau rök að klæðaburður sé notaður gegn konum í kynferðisbrotamálum.

Brjóst þurfa ekki að vera kynferðisleg:

Brjóst þjóna ekki þeim eina tilgangi að örva karlmenn kynferðislega. Það að konur megi ekki gefa börnum brjóst hvar sem er er gjörsamlega út í hött. Það er gríðarleg frelsisskerðing. Að halda börnunum sínum á lífi trompar blygðunarkennd, alltaf. Með því að birta mikið af myndum af brjóstum er verið að gera fólk ónæmt fyrir brjóstum og þau því ólíklegri til að reyna að stýra því hvar konur bera þau.

Gengisfelling hefndarkláms:

Hefndarklám hefur ekkert vald yfir konum ef þær setja myndinar sjálfar af fúsum og frjálsum vilja á netið. Þannig eru gerendur hefndarkláms afvopnaðir. Að horfast í augu við óttann og birta myndir af brjóstunum sínum er frelsandi. Þá stjórnar óttinn viðkomandi ekki lengur. Jafnvel þó það birti ekki allar konur myndir af brjóstunum á sér þá nægir ákveðinn fjöldi mynda til að „normalísera" myndirnar. Þetta hlýtur að vera besta og frumlegasta lausn á hefndarklámi hingað til þó að þetta sé ekki fullkomin lausn. Það má velta því fyrir sér hversu mikið frelsi er í því að eina leiðin til að fá frelsi sé með því að give it up before someone else takes it” ?

Pressa á stelpur til að sýna á sér brjóstin:

Vissulega myndast pressa en það er ekki þar með sagt að sú pressa réttlæti frelsisskerðingu þeirra stelpna sem vilja birta myndir af brjóstunum sínum. Konur hafa val til að láta ekki undan pressu og birta ekki myndir af brjóstum. Þá eiga konur einnig að hafa val til að birta myndir af brjóstunum sínum. Konur mega en ekki eiga að sýna á sér brjóstin. DV birti grein um unglinga sem virtu ekki val stelpu til að bera ekki á sér brjóstin. Ábyrgðin á ekki heima hjá byltingunni heldur hjá þeim einstaklingum sem virtu ekki val hennar. Þetta er spurning um frelsi til að velja.

Taka valdið:

Konur verða gerendur. Brjóstin eru fyrst og fremst okkar til að ráða hvað við gerum við þau.

Tvöfalt siðgæði:

Bæði kynin eiga að hafa sama frelsi og sömu mannréttindi.

Nekt er ekki hlutgerving:

Það getur verið erfitt að gera greinarmun á kynþokka, hlutgervingu og frelsi. Það virðist velta helst á forsendum viðkomandi. Byltingin minnkar þá fordóma að konur sem birta myndir af brjóstunum sínum hljóti að vera athyglissjúkar, með lágt sjálfstraust sem hlutgera sjálfa sig. Það er hægt að birta myndir af brjóstunum sínum af heilbrigðum forsendum og í göfugum tilgangi.

Strákar missi stjórn á sér:

Það veltur á aðstæðum hvort brjóst eru kynferðisleg eða ekki. Það gerir mjög lítið úr strákum að tala um þá sem stjórnlaus dýr. Í sumum löndum er haldið að karlar missi stjórn á sér við það eitt að sjá ökla á konu. Við erum komin lengra en það en eigum þó óþægilega langt eftir. Það að brjóst valdi kynferðislegri örvun er eitt og eflaust er ekki hægt að hafa fullkomna stjórn á því. Hins vegar er hægt að stjórna hegðun og það er þar sem við drögum fólk til ábyrgðar.  



Þú gætir séð eftir þessu:

Konur taka sínar eigin ákvarðanir og vita að myndin verður á internetinu til lengri tíma og gæti endað inn á klámsíðu. Það er tilgangurinn að þeim virðist vera sama. Múgæsingur getur þó verið varasamur en þær einar geta tekið þessa ákvörðun. Það er aldrei hægt að vera fullviss um að maður muni ekki sjá eftir einhverju í lífinu. Það er hluti af lífinu. Við sjáum flest eftir einhverju. Vegna fjölda brjósta sem er á internetinu nú þegar gæti verið að eftirsjá sé skaðminni en áður? Í versta falli ef þær sjá eftir því, væri það svo slæmt?

Það eru til mikilvægari vandamál:

Þetta eru rök sem halda ekki vatni. Það eru alltaf til mikilvægari vandamál að mati einhvers. Eigum við að sleppa því að sinna peningavandamálum Íslendinga því það er sveltandi fólk í Afríku? Þetta er dæmigerð þöggunaraðferð.

Styrkir sjálfsmynd kvenna:

Að banna berun brjósta stuðlar að því að konur skammist sín fyrir líkama sinn. Nú fyrst sér fólk hversu fjölbreytt brjóst raunverulega eru.

Velkomin í þriðju byltingu femínismans.



×