Fótbolti

Neymar: Ég, Suárez og Messi erum betri en Benzema, Bale og Ronaldo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Luis Suárez, Lionel Messi og Neymar er fínasta framlína.
Luis Suárez, Lionel Messi og Neymar er fínasta framlína. vísir/getty
Brasilíski framherjinn Neymar telur að Barcelona geti endurtekið leikinn frá 2009 þegar liðið vann þrennuna; deild, bikar og Meistaradeildina.

Barcelona er komið á toppinn í spænsku 1. deildinni, það mætir Athletic Bilbao í úrslitaleik spænska Konungsbikarsins 30. maí og er í góðri stöðu gegn Manchester City í í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Við erum með lið sem getur unnið þrennuna,“ segir Neymar sem hefur spilað mjög vel á leiktíðinni og skorað 26 mörk í 32 leikjum í öllum keppnum.

Einn af stærstu fótboltaleikjum hvers árs, El Clásico, fer fram um aðra helgi þegar Real Madrid heimsækir Barcelona á Nývang.

Vinni bæði lið sína leiki um næstu helgi mun Clásico vera mjög mikilvægur, en þá getur Barcelona annaðhvort náð fjögurra stiga forystu á toppnum eða Real endurheimt toppsætið.

Bæði lið eru með lygilega góða og dýra þriggja manna framlínu. Hjá Barcelona eru það Messi, Suárez og Neymar en Madrídingar bjóða upp á BBC-þríeykið; Bale, Benzema og Cristiano Ronaldo.

Aðspurður hvort Barca-þríeykið sé betra svarar Neymar: „Það finnst mér. Við einbeitum okkur bara að okkur sjálfum. Við hugsum ekki um andstæðinginn.“

„Messi er sá besti í heiminum og Suárez er frábær markaskorari. Það er heiður fyrir mig að spila með þeim. Þetta eru tveir ótrúlega góðir leikmenn,“ segir Neymar.

Gareth Bale, Karim Benzema og Cristiano Ronaldo.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×