Enski boltinn

Vilja nýjan samning fyrir „Ísmanninn“ sem er betri en allir í Bolton

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Smári Guðjohnsen sneri aftur í lið Bolton um helgina eftir að sitja á bekknum gegn Blackburn helgina þar á undan.

Eiður sneri aftur með stæl, en hann spilaði frábærlega og lagði upp seinna mark Bolton í 2-0 sigri á Millwall í ensku B-deildinni.

Á stuðningsmannasíðu Bolton, Lion Of Vienna Suite, halda menn ekki vatni yfir frammistöðu Eiðs Smára í leiknum sem fær hæstu einkunn eða 9 fyrir sína líkt og markvörðurinn, Ben Amos.

„Eiður Guðjohnsen sýndi óviðjafnaleg gæði í sigrinum á laugardaginn. Hann er í allt öðrum gæðaflokki en allir samherjar sínir. Stundum er gæðamunurinn svo mikill að aðrir leikmenn Bolton hafa ekki getu til að búast við sendingum hans,“ segir í frétt síðunnar þar sem allir leikmenn liðsins fá einkunn fyrir frammistöðu sína gegn Millwall.

„Samningur Ísmannsins rennur út í sumar og við erum bilaðir ef við gefum honum ekki annað ár. Þvílíkur leikmaður,“ segir enn fremur um Eið Smára.

Það er gott að vita til þess að Eiður Smári sé að spila svona vel því eins og Vísir greindi frá í morgun verður hann í leikmannahópi Íslands á móti Kasakstan í undankeppni EM 2016 í lok mánaðarins.

Hér að ofan má sjá stoðsendingu Eiðs Smára í leiknum gegn Millwall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×