Fótbolti

Wenger: Höfum reynsluna, löngunina og trúna til að komast áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger var brosmildur á blaðamannfundinum í gær.
Arsene Wenger var brosmildur á blaðamannfundinum í gær. Vísir/Getty
Arsenal þarf að endurskrifa söguna til að þess að komast áfram í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í kvöld en knattspyrnustjórinn Arsene Wenger hefur ekki misst trúna og segir mikilvægt að leikmann hans trúi líka.

Arsenal tapaði fyrri leiknum 3-1 á heimavelli og verður því að vinna 3-0, 4-1 eða 4-2 sem dæmi um þrjú úrslit sem kæmu liðinu áfram í keppninni. Ekkert lið sem hefur tapað 3-1 í fyrri leiknum hefur náð að komast áfram.

„Mónakó-liðið er í mjög sterkri stöðu en við höfum reynsluna, löngunina og trúna til að komast áfram," sagði Arsene Wenger.

„Við viljum gefa allt okkar í þennan leik og ná okkar allra bestu frammistöðu. Ef við hefðum ekki trúna þá værum við ekki hér," sagði Wenger.

„Tölfræðin er á móti okkur. Úrslitin í fyrri leiknum er á móti okkur. Við gerum okkur vel grein fyrir því. Sama hversu mikill eða lítill möguleikinn er þá verður við að gera okkar til þess að sjá til þess að tölfræðin gangi ekki upp. Það er okkar þrá og við trúum því að við getum þetta," sagði Wenger sem þjálfaði lið AS Monakó frá 1987 til 1994.

"Það verður mjög sérstök stund fyrir mig að mæta Mónakó-liðinu hér. Ég var ungur þjálfari hjá Mónakó og var hér í sjö ár. Reynslan sem ég hef öðlast síðan þá mun sant hjálpa mér að taka réttu ákvarðanirnar í þessum leik. Ég mun alveg geta aðskilið tilfinningarnar sem fylgja því að koma heima og mikilvægi þessa leiks," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×