Enski boltinn

„Joe Hart var ótrúlegur“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Frammistaða Joe Hart í marki Manchester City í kvöld sá til þess að Barcelona vann ekki stórsigur í leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Barcelona vann, 1-0, og er komið áfram í 8-liða úrslitin eftir 3-1 samanlagðan sigur. Hart, sem varði vítaspyrnu frá Lionel Messi í fyrri leik liðanna, var frábær í kvöld og varði margsinnis vel.

„Þetta er í annað sinn á jafn mörgum árum sem við föllum úr leik fyrir þessu frábæra liði. Þeim verður hrósað fyrir frammistöðuna í kvöld en við fengum risastórt tækifæri þegar okkur var dæmd vítaspyrna,“ sagði Hart.

Sergio Agüero lét verja frá sér vítaspyrnu um stundarfjórðungi fyrir leikslok sem hefði getað breytt miklu fyrir Englandsmeistarana.

„Það er synd að ég varði vítaspyrnu frá Lionel Messi [í fyrri leiknum] og að það hafði ekkert að segja. Ég er í markinu til að verja skot og þeir létu mig hafa fyrir hlutunum í kvöld.“

„Ég reyndi bara að kæfa þá. Þeir eru alltaf að leita að næstu sendingu og maður verður bara að láta þá koma til sín. Ég veit svo ekki hvernig skot Neymar fór ekki í netið í byrjun leiksins,“ sagði hann um stangarskot Brasilíumannsins.

James Milner, liðsfélagi Hart, hrósaði markverðinum í hástert. „Joe Hart var ótrúlegur. Hann hefur sýnt hversu frábær markvörður hann er. Þeir hefðu getað afgreitt okkur miklu fyrr í kvöld en Joe var magnaður. Okkur tókst samt ekki að sýna okkar rétta andlit í þessum tveimur leikjum,“ sagði Milner.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×