Fótbolti

Chris Waddle: City þarf átta nýja leikmenn til að vinna Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Silva var ekki sáttur með þetta gula spjald í gær.
David Silva var ekki sáttur með þetta gula spjald í gær. Vísir/Getty
Chris Waddle, fyrrum landsliðsmaður Englendinga og knattspyrnuspekingur BBC, hraunaði yfir leikmannahóp Manchester City í gærkvöldi eftir að Barcelona sló City út úr Meistaradeildinni.

Barcelona vann Manchester City reyndar bara 3-1 samanlagt en spænska liðið hefði átt að skora miklu fleiri mörk í leikjunum tveimur þar sem Joe Hart fór á kostum í marki City.

„Sergio Aguero er ógnandi en restin af liðinu eru bara vinnujálkar," sagði Chris Waddle sem segir róttækar breytingar séu nauðsynlegar hjá félaginu.

Waddle vill að City losi sig við alla nema Aguero, Joe Hart, Vincent Kompany, Pablo Zabaleta, David Silva og Yaya Toure. Hann telur að liðið þurfi að kaupa átta alvöru leikmenn til að eiga raunhæfa möguleika á því að vinna Meistaradeildina.

Manchester City er að borga hæstu launin í fótboltanum en liðið hefur samt sem áður ekki komist lengra en í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar undanfarin fjögur ár.

Manchester City hefur reyndar mætt Barcelona, einu allra besta liði heims, í sextán liða úrslitunum undanfarin tvö ár og það hefðu ekki mörg lið farið lengra á móti Lionel Messi og félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×