Íslenski boltinn

Eyjamenn semja við Norðmann | Var á mála hjá Manchester City

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjamenn ætla að byggja upp öflugt lið á næstu árum.
Eyjamenn ætla að byggja upp öflugt lið á næstu árum. vísir/andri marinó
ÍBV hefur samið við norska leikmanninn Tom Even Skogsrud. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Eyjamenn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍBV.

Tom þessi er 21 árs gamall og hefur leikið með yngri landsliðum Noregs. Hann er fjölhæfur og getur leikið sem miðvörður, bakvörður og á miðjunni.

„Tom fór ungur að árum eða 16 ára til Manchester City og var á mála þar til 18 ára

aldurs er hann gekk til liðs við Glasgow Rangers.

„Þaðan fór hann til heimalandsins og hefur leikið þar með Sandefjord og Kongsvinger. Hann lék árin 2012-2013 með Sandefjord og á sl. keppnistímabili með Kongsvinger,“ segir í fréttatilkynningunni frá ÍBV en liðið endaði í 10. sæti í Pepsi-deildinni í fyrra.

„Tom verður mikilvægur hlekkur í því þriggja ára verkefni sem miðar að því að byggja upp öflugt lið ÍBV, sem hefur það markmið að ná betri árangri en undanfarin ár.

„Markmið félagsins og Jóhannesar Harðarsonar þjálfara liðsins, er að byggja upp lið sem leikur skemmtilega knattspyrnu, byggir á þeirri Eyjastemmingu sem lið ÍBV á að byggja á, og síðast en ekki síst að efla yngri leikmenn liðsins,“ segir ennfremur í fréttatilkynningunni frá ÍBV.

Eyjamenn mæta Breiðabliki á laugardaginn í næsta leik sínum í Lengjubikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×