Fótbolti

Elmar fékk rautt en sannfærandi sigur Randers

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Theódór Elmar Bjarnason fékk að líta rauða spjaldið er lið hans, Randers, vann 3-0 sigur á lærisveinum Ólafs Kristjánssonar í Nordsjælland á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Elmar fékk að líta síðari áminningu sína á 40. mínútu en staðan var þá þegar orðin 3-0 fyrir Randers. Nordsjælland var meira með boltann í leiknum en náði þó ekki að færa sér liðsmuninn í nyt og minnka forystu gestanna.

Guðmundur Þórarinnsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Nordsjælland í kvöld og var í byrjunarliðinu, sem og Guðjón Baldvinsson. Guðmundur var tekinn af velli á 68. mínútu. Ögmundur Kristinsson, markvörður, var á meðal varamanna Randers í leiknum.

Randers komst upp í annað sæti dönsku deildarinnar með 34 stig en Nordsjælland er í fimmta sæti með 25 stig. Midtjylland er á toppnum með 40 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×