Fótbolti

Monaco niðurlægði Arsenal | Sjáðu mörkin

Monaco er í frábærum málum í Meistaradeildinni eftir ótrúlegan 1-3 sigur á Arsenal í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar.

Arsenal gekk ekkert sérstaklega vel að skapa sér færi framan af leik þrátt fyrir að vera miklu meira með boltann.

Liðinu var svo refsað á 38. mínútu. Geoffrey Kondogbia átti þá skot fyrir utan teig sem fór í Per Mertesacker og í netið. Spurning hvort markvörður Arsenal hefði ekki átt að gera betur þó svo skotið hafi aðeins beygt af leið.

Lodogbia varð þarna fyrsti Frakkinn í tíu ár til þess að skora Meistaradeildarmark fyrir Monaco.

Arsenal varð að sækja enn meir í síðari hálfleik og við það opnaðist vörn þeirra enn meira. Það nýtti Monaco sér er liðið komst í skyndisókn. Sú sókn endaði með því að Dimitar Berbatov skoraði og kom Monaco í 0-2.

Arsenal mátti þakka fyrir að fá ekki fleiri mörki á sig á næstu mínútum enda fékk Monaco færin. Að sama skapi voru framherjar Arsenal að fara illa með þau tækifæri sem þeir fengu.

Það var nákvæmlega ekkert sem benti til þess að Arsenal myndi skora er Oxlade-Chamberlain skoraði mark með frábæru skoti utan teigs. Ótrúlega mikilvægt mark.

Mikilvægi marksins minnkaði síðan í uppbótartíma er Carrasco náði að skora þriðja mark Monaco og tryggja liðinu ótrúlegan sigur.

Fyrsta markið má sjá hér að ofan en hin mörkin hér að neðan.



Berbatov kemur Monaco í 0-2. Uxinn minnkar muninn fyrir Arsenal. Carrasco klárar leikinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×