Körfubolti

Snæfell náði fjögurra stiga forskoti á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 13 stig fyrir Snæfell í kvöld.
Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 13 stig fyrir Snæfell í kvöld. Vísir/Vilhelm
Snæfell jók forskot sitt á toppi Dominos-deildar kvenna í körfubolta í kvöld því á sama tíma og liðið vann öruggan sigur á Hamar í Hveragerði þá töpuðu Keflavíkurstúlkurnar í Grindavík.

Snæfell hefur nú fjögurra stiga forskot á Keflavíkurliðið sem var án margra sterkra leikmanna í leiknum í Röstinni í kvöld. Liðin berjast um deildarmeistaratitilinn og heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina.

Snæfell vann 24 stiga sigur á Hamar, 64-40, en Hamarsliðið skoraði aðeins fimmtán stig í seinni hálfleik. Kristen Denise McCarthy var með 20 stig og 18 fráköst hjá Snæfelli og fyrirliðinn Hildur Sigurðardóttir bætti við 16 stigum, 10 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Grindavík vann níu stiga sigur á Keflavík, 67-58, í generalprufunni fyrir bikarúrslitaleikinn en Keflavík lék án þriggja lykilmanna í leiknum, hinnar bandarísku Carmen Tyson-Thomas, leikstjórnandans Ingunnar Emblu Kristínardóttur og fyrirliðans Birnu Valgarðsdóttur.

Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 20 stig fyrir Grindavík og Kristina King var með 12 stig. Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 12 stig fyrir Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×