Fótbolti

Messi að verða búinn að vinna upp þrettán marka forskot Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi skoraði þrennu í gær þegar Barcelona vann 5-0 heimasigur á Levante í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta og er Argentínumaðurinn þar með kominn með 26 deildarmörk á tímabilinu.

Messi er búinn að skora í sex deildarleikjum í röð, samtals 11 mörk, og um leið hefur hann næstum því unnið upp mikið forskot Cristiano Ronaldo í baráttunni um markakóngstitilinn.

22. nóvember síðastliðinn var Cristiano Ronaldo með þrettán marka forystu á Messi, 20 mörk á móti 7, en eftir þrennu Messi um helgina munar aðeins tveimur mörkum á þeim félögum.

Cristinao Ronaldo er enn markahæstur með 28 mörk en hann skoraði ekki í sigri Real Madrid um helgina og hefur þar með ekki skorað í þremur deildarleikjum í röð.

Messi hefur nú skorað 37 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni og er búinn að taka framúr Cristinao Ronaldo á þeim lista.

Lionel Messi jafnaði jafnframt met Cristinao Ronaldo með því að skora sína 23. þrennu í spænsku úrvalsdeildinni en Ronaldo hafði fyrr í vetur bætt met þeirra Alfredo Di Stéfano og Telmo Zarra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×