Fótbolti

Messi: Ég var í vandræðum innan og utan vallar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi er ágætur þó hann sé ekki upp á sitt besta alltaf.
Lionel Messi er ágætur þó hann sé ekki upp á sitt besta alltaf. vísir/getty
Lionel Messi, leikmaður Barcelona, viðurkennir að hafa átt í vandræðum innan og utan vallar á síðasta ári sem komu í veg fyrir að hann stæði sig betur en raun bar vitni.

Þessi 27 ára gamli snillingur skoraði engu að síður 41 mark í 46 leikjum sem væri gott fyrir flesta og rúmlega það. Hann var engu að síður gagnrýndur og sérstaklega þegar Barcelona lauk síðasta tímabili án titils.

Messi þurfti að mæta nokkrum sinnum fyrir rétt á síðasta ári vegna skattsvika og það hafði áhrif á hann innan vallar.

„Sannleikurinn er sá að ég er að reyndi að koma mér í mitt besta form um leið og nýtt tímabil hófst. Ég veit að síðasta ár var ekki nógu gott hjá mér. Ég glímdi við mikið að vandamálum innan og utan vallar,“ segir Messi í viðtali við Mundo Leo.

„Það var erfitt að standa undir þeim væntingum sem gerðar eru til mín og vera leikmaðurinn sem ég var áður. Það var markmið mitt að vera aftur sá leikmaður á þessu tímabili og ég var meira en klár í það.“

Barcelona er í góðum gír þessar vikurnar; liðið vinnur hvern leikinn á fætur öðrum og skorar að vild. Það á fyrir höndum erfiða leiki gegn Englandsmeisturum Manchester City í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Við erum í góðu formi þessa dagana. Sem betur fer breyttist allt eftir leikinn gegn Real Sociedad. Það er önnur dínamík í liðinu núna og allt sem reynum heppnast. Það er mikið sjálfstraust í liðinu og þess vegna erum við að spila svona vel,“ segir Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×