Körfubolti

Stjörnumenn í Höllina í þriðja sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Vísir/Ernir
Stjarnan tryggði sér sæti í úrslitaleik Poweradebikar karla í körfubolta eftir fimm stiga sigur á Skallagrími, 102-97, í undanúrslitaleik liðanna í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld.

Stjörnuliðið hefur farið tvisvar í Höllina, 2009 og 2013, og unnið bikarinn í bæði skiptið. Stjarnan mætir annaðhvort KR eða Tindastóli í bikarúrslitaleiknum en seinni undanúrslitaleiknum í DHL-höllinni á morgun.

Bakvarðarparið Justin Shouse og Dagur Kár Jónsson áttu enn einn góða leikinn með Stjörnuliðinu. Justin var með 31 stig og 5 stoðsendingar og Dagur Kár skoraði 24 stig.

Sigtryggur Arnar Björnsson átti góðan leik með Skallagrími (26 stig og 6 stoðsendingar) en Tracy Smith var stigahæstur með 29 stig. Páll Axel Vilbergsson skoraði 18 stig en Magnús Þór Gunnarsson var með aðeins með 3 stig á 36 mínútum.

Stjörnuliðið var 25-20 yfir eftir fyrsta leikhlutann og með fimm stiga forskot í hálfleik, 49-44. Stjarnan skoraði síðan sjö fyrstu stigin í seinni hálfleik og eftir það var á brattann að sækja hjá heimamönnum.

Skallagrímsmenn gáfust ekki upp, héngu í Garðabæjarliðinu en náðu aldrei að vinna muninn alveg upp þrátt fyrir mikla baráttu.

Spennan hélst þó allt til loka og Páll Axel Vilbergsson minnkaði muninn í þrjú stig, 100-97, þremur sekúndum fyrir leikslok. Justin Shouse setti þá niður tvö víti og kláraði leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×