Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Skallagrímur 88-78 | Lífsnauðsynlegur sigur Fjölnis

Ingvi Þór Sæmundsson í Dalhúsum skrifar
Ólafur Torfason.
Ólafur Torfason. Vísir/Ernir
Fjölnir vann gríðarlega mikilvægan sigur, 88-78, á Skallagrími í miklum fallslag í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld.

Með sigrinum komust Fjölnismenn upp úr fallsæti og um leið þá tryggði sigurinn þeim betri árangur í innbyrðisviðureignunum gegn Skallagrími sem gæti reynst dýrmætt þegar talið verður upp úr kössunum í vor.

Það var nánast ekkert sem bar í milli liðanna í fyrri hálfleik og það var viðeigandi að staðan væri jöfn, 38-38, þegar þau gengu til búningsherbergja.

Fjölnismenn voru með frumkvæðið í upphafi leiks þar sem Davíð Ingi Bustion var öflugur en hann var stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleik með 12 stig auk þess sem hann spilaði fína vörn á Magnús Þór Gunnarsson, stórskyttu Borgnesinga.

Magnús skoraði aðeins sex stig í fyrri hálfleik og hafði hægt um sig líkt og Sigtryggur Arnar Björnsson sem skoraði einnig sex stig, auk þess sem hann tapaði boltanum fjórum sinnum í hálfleiknum.

Að sama skapi fengu Fjölnismenn lítið framlag frá Arnþóri Frey Guðmundssyni, einnar sinnar helstu kanónu, en hann skoraði aðeins þrjú stig í fyrri hálfleik.

Fjölnismenn leiddu með tveimur stigum eftir 1. leikhluta, 20-18, en Skallagrímsmenn voru ívið sterkari í þeim næsta þar sem þeir voru duglegir að sækja villur á heimamenn og koma sér á vítalínuna.

Alls skoraði Skallagrímur 15 stig af vítalínunni í fyrri hálfleik, eða 39,8% allra þeirra stiga sem þeir skoruðu í hálfleiknum.

Gestirnir náðu ágætis kafla undir lok fyrri hálfleiks og náðu mest fimm stiga forystu, 33-38, sem var mesti munur sem var á liðunum í fyrri hálfleik.

Fjölnismenn skoruðu hins vegar fimm síðustu stig fyrri hálfleiks og staðan því jöfn í leikhléi, 38-38.

Skallagrímur skoraði fyrstu stig 3. leikhluta en síðan ekki söguna meir. Fjölnismenn áttu leikhlutann með húð og hári og spiluðu á köflum stórvel. Arnþór fór í gang, Jonathan Mitchell skilaði flottu framlagi og þá spilaði Róbert Sigurðsson mjög vel en hann gældi við þrefalda tvennu, með níu stig, níu fráköst og 11 stoðsendingar.

Gestirnir voru hins vegar heillum horfnir, bæði í vörn og sókn, og enginn meir en Tracy Smith Jr. sem skoraði ekki stig í 3. leikhluta og var álíka sýnilegur og draugurinn Casper.

Fjölnismenn leiddu með níu stigum, 61-52, eftir 3. leikhluta og þann mun náðu gestirnir úr Borgarnesi aldrei að brúa.

Smith kom reyndar úr felum í 4. leikhluta, þar sem hann skoraði 11 stig, en það dugði ekki til. Fjölnismenn spiluðu af skynsemi og unnu að lokum sanngjarnan tíu stiga sigur, 88-78.

Mitchell var stigahæstur í liði Fjölnis með 27 stig en hann tók auk þess 11 fráköst. Davíð Ingi átti einnig frábæran leik eins og áður sagði, en hann skoraði 15 stig, tók átta fráköst og gerði Magnúsi lífið leitt í vörninni. Arnþór skilaði 11 stigum og sex fráköstum og þá hefur framlag Róberts verið nefnt.

Smith var atkvæðamestur hjá gestunum með 23 stig og 13 fráköst en Borgnesingar máttu illa við andlegri fjarveru hans í 3. leikhluta.

Magnús og Sigtryggur skoruðu báðir 16 stig en voru ískaldir fyrir utan þriggja stiga línuna og hittu aðeins úr þremur af 18 þriggja stiga skotum sínum (16,7%).

Hjalti: Undirbjuggum þetta eins og úrslitaleik

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, var hæstánægður með sigur sinna manna á Skallagrími í kvöld.

"Þetta var rosalega mikilvægur sigur. Við vorum rosalega svekktir eftir að hafa tapað fyrir ÍR en það er búinn að vera mikill stígandi hjá okkur. Og við sýndum það í kvöld hvað við getum.

"Skallagrímur spilaði hörkuvel líka en við börðumst vel," sagði Hjalti en sigurinn tryggir Fjölni betri árangur í innbyrðisviðureigninni gegn Skallagrími.

Hann hefði þó viljað sjá sína menn vinna stærri sigur vegna innbyrðisviðureigna þeirra þriggja liða sem berjast á botni Domino's deildarinnar.

"Við urðum að vinna með allavega átta stigum, ef öll þrjú verða jöfn innbyrðis. Ég pressaði á strákana að fara allavega yfir átta og við urðum að fá sem flest stig," sagði Hjalti en hvað fannst honum skila sigrinum í kvöld?

"Grægðin hjá okkur - við ætluðum okkur að vinna þennan leik. Við undirbjuggum okkur rosalega vel fyrir leikinn - fengum t.d. fyrirlesara á miðvikudaginn - og miklu betur en gegn ÍR. Neistinn var til staðar," sagði Hjalti sem var mjög sáttur með frammistöðu Davíðs Inga Bustion sem skoraði 15 stig, tók átta fráköst og spilaði góða vörn á Magnús Þór Gunnarsson.

"Hann var frábær. Hann er búinn að vera meiddur nánast allt tímabilið og er að komast aftur í gang.

"Hann fékk hlutverk í dag sem hann skilaði frábærlega, að stoppa Magga. Allt sem hann gerði sóknarlega var plús. Hann skoraði fyrstu þrjár körfurnar okkar og kom okkur í gang," sagði Hjalti að lokum.

Finnur: Þurfum að rífa okkur í gang

Finnur Jónsson, þjálfari Skallagríms, var afar fáorður í samtali við Vísi eftir tapið gegn Fjölni í Dalhúsum í kvöld.

"Allt," var svarið þeirri spurningu hvað hefði farið úrskeiðið hjá hans mönnum í kvöld.

"Við fengum 50 stig á okkur seinni hálfleik. Það er ömurleg vörn," bætti hann við.

Eftir sigur Fjölnismanna er ljóst að þeir verða með betri árangur í innbyrðisviðureignunum gegn Skallagrími sem gæti reynst þungt á metunum í mótslok. En hvernig lýst Finni á framhaldið hjá sínum mönnum?

"Það verður bara harka, barátta framundan. Við þurfum að rífa okkur í gang, hætta þessum tepruskap og þora. Þetta var hundlélegt," sagði Finnur að lokum.

Fjölnir-Skallagrímur 88-78 (20-18, 18-20, 23-14, 27-26)

Fjölnir: Jonathan Mitchell 27/11 fráköst, Davíð Ingi Bustion 15/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 11/4 fráköst/6 stoðsendingar, Róbert Sigurðsson 9/9 fráköst/11 stoðsendingar, Garðar Sveinbjörnsson 8, Valur Sigurðsson 7, Ólafur Torfason 6/5 fráköst, Danero Thomas 5.

Skallagrímur: Tracy Smith Jr. 23/13 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 16, Sigtryggur Arnar Björnsson 16/5 fráköst, Egill Egilsson 8/4 fráköst, Daði Berg Grétarsson 6, Trausti Eiríksson 6/8 fráköst, Davíð Ásgeirsson 3.

[Bein textalýsing]



Leik lokið | 88-78 | Gríðarlega mikilvægur Fjölnissigur í höfn.

39. mín | 82-72 | Valur Sigurðsson skorar og fer langleiðina með að tryggja heimamönnum sigurinn. Smith fékk sína fimmtu villu fyrir stuttu og hefur því lokið leik. Hann endaði með 23 stig og 13 fráköst.

37. mín | 75-65 | Munurinn var kominn niður í sjö stig en Garðar Sveinbjörnsson eykur hann upp í 10 stig. Davíð Ingi fær svo sína fimmtu villu og hefur því lokið leik í kvöld.

36. mín | 72-59 | Mitchell leggur boltann ofan í. Hann er kominn með 22 stig. Fjölnismenn eru að spila þetta af mikilli skynsemi.

34. mín | 67-55 | Arnþór neglir niður örum þristi. Munurinn er kominnn upp í tólf stig.

31. mín | 64-52 | Arnþór opnar 4. leikhluta með þristi. Sá hefur vaknað til lífsins í seinni hálfleik.

Þriðja leikhluta lokið | 61-52 | Þessi leikhluti var eign heimamanna sem leiða með níu stigum fyrir lokafjórðunginn. Mitchell er kominn með 17 stig og tíu fráköst hjá Fjölni en Magnús er stigahæstur gestanna með 13 stig. Skallarnir þurfa að fá einhver stig frá Smith sem hefur ekki sést í seinni hálfleik.

28. mín | 57-47 | Heljarmennið Ólafur Torfason neglir niður þristi og kemur Fjölni tíu stigum yfir. Finnur tekur umsvifalaust leikhlé. Skallarnir þurfa að fá Smith í gang en hann er ekki búinn að skora í seinni hálfleik.

26. mín | 52-44 | Magnús með loftbolta sem gleður stuðningsmenn Fjölnis mjög. Arnþór gerir hins vegar engin mistök hinu megin á vellinum og kemur Grafarvogsbúum átta stigum yfir.

24. mín | 46-40 | Fjölnismenn eru í fínum gír þessa stundina. Körfur frá Róberti og Mitchell koma þeim sex stigum yfir.

22. mín | 41-40 | Arnþór kemur heimamönnum yfir með tveimur vítaskotum. Þriggja stiga nýting liðanna hingað til er afleit: 20% hjá Fjölni og 8% hjá Sköllunum.

Seinni hálfleikur hafinn | 38-40 | Trausti Eiríksson skorar fyrstu stig seinni hálfleiks af vítalínunni.

Fyrri hálfleik lokið | 38-38 | Jafnt á öllum tölum þegar liðin ganga til búningsherbergja. Þetta hefur verið jafnt meira og minna allan hálfleikinn. Davíð Ingi er enn stigahæstur hjá Fjölni með 12 stig en Mitchell kemur næstur með níu stig og sex fráköst. Smith er atkvæðamestur Borgnesinga með 12 stig og sjö fráköst. Daði Berg Grétarsson kemur næstur með sex stig, sem öll hafa komið af vítalínunni.

19. mín | 35-38 | Ólafur Torfason stelur boltanum, röltir upp völlinn og skorar sín fyrstu stig. Fjölnismönnum hefur gengið illa i uppstilltum sóknarleik svo þessi stig voru vel þegin.

17. mín | 32-34 | Finnur Jónsson, þjálfari Skallanna, tekur leikhlé. Hann klæðist laxableikum buxum sem er eitthvað sem ég hef ekki séð þjálfara gera áður. Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis, er hins vegar öllu hefðbundnari í gallabuxum.

16. mín | 32-31 | Davíð Ingi fær sína þriðju villu. Skallagrímsmenn eru komnir í bónus þegar fjórar og hálf mínúta eru eftir af fyrri hálfleik.

15. mín |31-31 | Arnþór fær dæmdan á sig ruðning. Fjölnismenn eiga hann alveg inni en Arnþór er enn stigalaus og hefur aðeins tekið eitt skot til þessa í leiknum.

14. mín |27-30 | Egill Egilsson kemur Sköllunum yfir með þristi, þeim fyrsta frá gestunum.

12. mín | 25-22 | Enn heldur Davíð Ingi áfram að kasta boltanum ofan í körfuna. Hann er kominn með 12 stig, flest allra á vellinum.

Fyrsta leikhluta lokið | 20-18 | Fjölnismenn enda 1. leikhluta með 6-2 spretti og leiða með tveimur stigum. Davíð Ingi hefur farið fyrir Fjölnisliðinu með 10 stig og þrjú fráköst, auk þess sem hann hefur spilað fína vörn á Magnús sem er enn stigalaus. Smith er stigahæstur gestanna með átta stig en heimamenn hafa ráðið lítið við hann þegar hann fær boltann nálægt körfunni.

8. mín | 12-14 | "Og-einn" karfa hjá Smith sem brennir af vítinu. Hann er kominn með átta stig og þau eiga eftir að verða mikið fleiri í kvöld.

5. mín | 12-8 | Mitchell kemur Fjölni fjórum stigum yfir. Hann er kominn með fjögur stig. Magnús fær í kjölfarið dæmda á sig sóknarvillu.

3. mín | 6-4 | Davíð Ingi Bustion fer vel af stað og er búinn að skora öll sex stig heimamanna.

Leikur hafinn | 0-2 | Smith skorar fyrstu stig leiksins.

Fyrir leik: Páll Alex Vilbergsson leikur ekki með Skallagrími í kvöld vegna meiðsla en hann hefur aðeins komið við sögu í sjö deildarleikjum á tímabilinu.

Fyrir leik: Það eru reyndir kappar sem sjá um dómgæsluna í leik kvöldsins, eða þeir Björgvin Rúnarsson, Leifur Garðarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.

Fyrir leik: Það er vert að fylgjast vel með Sigtryggi Arnari Björnssyni en þessi 21 árs gamli leikstjórnandi hefur sýnt góða leiki í vetur. Hann er með 17,1 stig að meðaltali í leik, auk 4,7 frákasta og 5,0 stoðsendinga.

Fyrir leik: Skallagrímur fengu einnig liðsstyrk fyrir átökin á seinni hluta tímabilsins þegar Magnús Þór Gunnarsson kom til liðsins frá Grindavík. Magnús, sem spilaði lengst af með sigursælu liði Keflavíkur, hefur skilað 16,0 stigum að meðaltali í þeim fjórum leikjum sem hann hefur spilað með Skallgrími. Magnús er ein albesta skytta sem spilað í deildinni hér heima en skotnýting hans fyrir utan þriggja stiga línuna í búningi Skallagríms er ekkert sérstök, eða 27,0%. Magnús reynir að meðaltali 9,3 þrista í leik og setur 2,5 þeirra niður.

Fyrir leik: Fjölnismenn skiptu um bandarískan leikmann í jólafríinu, létu Daron Lee Sims fara og fengu Jonathan Mitchell í staðinn. Sá hefur reynst Grafarvogsliðinu vel, skorað 28,3 stig og tekið 9,8 fráköst að meðaltali í þeim fjórum deildarleikjum sem hann hefur spilað síðan hann kom til landsins. Fjölnir hefur hins vegar aðeins unnið einn af þessum fjórum leikjum; gegn Haukum fyrir rúmum tviemur vikum.

Fyrir leik: Tracy Smith Jr. fór á kostum í fyrri leik liðanna og skoraði 44 stig og tók 10 fráköst. Þessi þrítugi miðherji, sem lék með Njarðvík í fyrra, er stigahæsti leikmaður Skallagríms á tímabilinu með 26,9 stig að meðaltali í leik. Hann er einnig frákastahæstur Borgnesinga með 12,4 fráköst að meðaltali í leik.

Fyrir leik: Það þarf varla að fjölyrða um mikilvægi leiksins. Sigurliðið kemst upp úr fallsæti um stund en leikurinn er líka mikilvægur upp á úrslit í innbyrðisviðureignum liðanna. Fjölnir vann fyrri leik liðanna í Borgarnesi, 110-113, og Skallagrímur þarf því að vinna leikinn í kvöld með fjórum stigum til að ná yfirhöndinni í innbyrðisviðureignum liðanna.

Fyrir leik: Góða kvöldið og velkomin með Vísi í Dalhús í Grafarvogi. Hér verður leik Fjölnis og Skallagríms í Dominos-deild karla lýst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×