Íslenski boltinn

Guðmann Þórisson semur við FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmann lék síðast með FH 2013.
Guðmann lék síðast með FH 2013. vísir/stefán
Miðvörðurinn Guðmann Þórisson hefur komist að samkomulagi við FH um að leika á ný með liðinu, en hann skrifar undir þriggja ára samning við Hafnafjarðarfélagið á næstu dögum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá FH-ingum þar sem Heimir Guðjónsson, þjálfari liðsins, segir: „Við erum gríðarlega ánægðir með að fá Guðmann aftur í Kaplakrika. Guðmann spilaði virkilega vel þessi tvö ár sem hann var hjá félaginu, áður en að hann hélt aftur út í atvinnumennsku.“

Guðmann lék með FH 2012 og 2013 áður en hann fór í atvinnumennsku til Svíþjóðar. Hann spilaði á síðasta ári með Mjällby sem féll úr sænsku úrvalsdeildinni.

Þetta er mikill liðsstyrkur fyrir FH sem er nú þegar gríðarlega vel mannað og ætlar sér stóra hluti í sumar.

Guðmann var einn besti varnarmaður deildarinnar sumarið 2013 þegar FH komst í umspil um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×