Körfubolti

Stjörnumenn réðu ekki við Jón Axel og endurfædda Grindvíkinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Vísir/Andri Marinó
Grindvíkingar fögnuðu sínum fimmta leik í röð í Dominos-deild karla í körfubolta þegar þeir unnu tólfmarka sigur á Stjörnunni, 104-92, í Röstinni í Grindavík í kvöld.

Stjörnumenn tefldu fram tveimur bandarískum leikmönnum í leiknum en það dugði ekki á móti Grindavikurliðinu sem hefur heldur betur skipt um gír eftir skelfilega byrjun á tímabilinu.

Grindvíkingar unnu aðeins 2 af fyrstu 9 leikjum tímabilsins en Sverrir Þór Sverrisson hefur tekist að snúa við Grindavíkurskútunni sem stefnir nú upp töfluna.

Jón Axel Guðmundsson átti frábæran leik með Grindavík en þessi 18 ára gamli strákur var með 22 stig og 12 stoðsendingar í leiknum. Hann kom aftur heim um áramótin og hefur reynst frábær liðstyrkur fyrir Grindavíkurliðið.

Rodney Alexander var með 27 stig og 14 fráköst, Ólafur Ólafsson skoraði 16 stig og Jóhann Árni Ólafsson var með 15 stig.

Dagur Kár Jónsson skoraði 26 stig fyrir Stjörnuna og Justin Shouse var með 21 stig og 9 fráköst.

Jarrid Frye skoraði 12 stig í væntanlega síðasta leik sínum fyrir Stjörnuna en nýi maðurinn

Jeremy Martez Atkinson, var með 10 stig á 15 mínútum.

Grindavík vann fyrsta leikhlutann 25-23 og var 54-49 yfir í hálfleik. Stjörnumenn minnkuðu muninn í þrjú stig fyrir lokaleikhlutann en heimamenn í Grindavík voru mun sterkari í fjórða og síðasta leikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×