Körfubolti

Snæfellingar burstuðu nágrannana hafa unnið alla leiki ársins 2015

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson skoraði 29 stig fyrir Snæfell í kvöld.
Sigurður Þorvaldsson skoraði 29 stig fyrir Snæfell í kvöld. Vísir/Stefán
Snæfellingar byrja árið vel í Dominos-deild karla í körfubolta en Hólmarar hafa unnið þrjá fyrstu deildarleiki ársins 2015.  

Snæfell vann sannfærandi 35 stiga sigur á Skallagrími í Stykkishólmi í kvöld, 97-62, í seinni Vesturlandsslag tímabilsins en Snæfell vann níu stiga sigur á Borgarnesi fyrr í vetur.

Sigurinn í kvöld þýðir að Snæfellsliðið er í þriðja til sjötta sæti deildarinnar með sextán stig eins og Stjarnan, Njarðvík og Keflavík. Skallagrímsmenn eru áfram í fallsæti.

Sigurður Þorvaldsson skoraði 29 stig fyrir Snæfell og Christopher Woods var með 18 stig og 19 fráköst. Stefán Karel Torfason bætti síðan við 15 stigum og Snjólfur Björnsson skoraði 14 stig.

Tracy Smith skoraði 20 stig og tók 15 fráköst fyrir Skallagrím sem lék án Páls Axels Vilbergssonar í leiknum. Sigtryggur Arnar Björnsson var með 12 stig.

Snæfell tók völdin strax í fyrsta leikhlutanum sem liðið vann 25-14 og munurinn var orðin 19 stig í hálfleik, 46-27, eftir að Hólmarar unnu annan leikhlutann 21-13.

Snæfellsliðið skoraði ellefu af fyrstu fimmtán stigum seinni hálfleiksins og var þar með komið 26 stigum yfir í leiknum, 57-31, og úrslitin nánast ráðin.

Sigurður Þorvaldsson fór hamförum í þriðja leikhlutanum og skoraði þá 16 af 29 stigum Hólmara sem unnu leikhlutann 29-19 og komu muninum upp í 29 stig fyrir lokaleikhlutann, 75-46.



Snæfell-Skallagrímur 97-62 (25-14, 21-13, 29-19, 22-16)

Snæfell: Sigurður Á. Þorvaldsson 29/5 fráköst, Christopher Woods 18/19 fráköst, Stefán Karel Torfason 15/7 fráköst, Snjólfur Björnsson 14/4 fráköst, Austin Magnus Bracey 10/6 stoðsendingar, Sveinn Arnar Davíðsson 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 3.

Skallagrímur: Tracy Smith Jr. 20/15 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Magnús Þór Gunnarsson 8/6 fráköst, Daði Berg Grétarsson 6, Trausti Eiríksson 5/4 fráköst, Davíð Guðmundsson 3, Davíð Ásgeirsson 3, Egill Egilsson 3/4 fráköst, Atli Aðalsteinsson 2. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×