Erlent

Leitin að Boumeddiene heldur áfram

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Umfangsmikil leit er nú gerð að Boumeddiene.
Umfangsmikil leit er nú gerð að Boumeddiene. Vísir/AFP
Eftir þriggja daga upplausnarástand í París, þar sem 17 voru drepnir í hryðjuverkaárás og tveimur gíslatökum, eru frönsk yfirvöld enn að leita að fyrrverandi unnustu eins af gíslatökumönnunum sem féllu í aðgerðum lögreglu í París í gær. Konan, sem er fædd árið 1988, heitir Hayat Boumeddiene og er grunuð um aðild að árás sem gerð var á fimmtudag þar sem lögreglukona lét lífið.

Hayat Boumeddiene, sem lögreglan segir að sé vopnuð og hættuleg, er fyrrverandi kærasta Amedy Coulibaly, mannsins sem tók fjölda einstaklinga gíslingu í matvöruverslun í París á föstudag. Coulibaly banaði fjóra viðskiptavini verslunarinnar þegar hann réðist inn í verslunina vopnaður tveimur Kalashnikov-hríðskotarifflum, samkvæmt saksóknaraembætti í París.

Í sambandi við bræðurna

Boumeddiene er 26 ára gömul og ein sjö systkina. Móðir hennar lést árið 1994, þegar Boumeddiene var sex ára gömul, og var hún sett í fóstur ásamt nokkrum systkina sinna þar sem faðir hennar gat ekki séð fyrir þeim. Hún var gift Coulibaly árið 2009 í trúarathöfn þar sem hún sjálf var ekki viðstödd en athöfnin er ekki viðurkennd samkvæmt frönskum lögum. Hún bjó með honum í Bagneux, úthverfi Parísar. Þar bjó hún á meðan Coulibaly var í fangelsi en honum var sleppt á síðasta ári.

Sjá einnig: Umsátrinu í París lokið: Gíslatökumennirnir féllu í aðgerðum lögreglu

Saksóknari í París, François Molins, segir að Boumeddiene hafi verið í miklu sambandi við eiginkonu Cherif Kouachi, annars bræðranna sem grunaðir eru um að hafa ráðist inn á skrifstofur vikublaðsins Charlie Hebdo á miðvikudag. Bræðurnir féllu í aðgerðum lögreglu í gær en þeir voru þá búnir að taka gísla í prentsmiðju í Dammartin-en-Goële. Molins segir að þær hafi talað saman yfir 500 sinnum í síma á síðasta ári.

Guardian segir einnig frá því að Boumeddiene hafi varið með Coulibaly og Kouachi í heimsóknir til Djamel Beghal, sem er róttækur predikari sem situr nú í stofufangelsi eftir að hafa verið dæmdur fyrir hryðjuverk. Að sögn Le Monde voru Coulibaly og Cherif Kouachi tveir af nánustu fylgjendum hins dæmda hryðjuverkamanns, Djamel Beghal.

Boumeddiene er strangtrúaður múslími og var, að sögn Le Parisien, sagt upp störfum í matvöruverslun eftir að hafa farið fram á að klæðast niqab, sem hylur andlitið. Le Monde hefur birt myndir af henni frá árinu 2010 þar sem hún klæðist niqab og mundar lásboga.

Birtu nöfn hinna látnu

CRIF, sem eru samtök gyðinga í Frakklandi, upplýstu um nöfn fórnarlamba Coulibaly í dag, en þau voru öll gyðingar. Þau hétu Yoav Hattab, Philippe Braham, Yohan Cohen og François-Michel Saada. Samtökin fordæmdi líka árásina. „Þessir frönsku ríkisborgarar voru drepnir köldu blóði, af því að þau voru gyðingar,“ segir í yfirlýsingu CRIF.

Sjá einnig: Blaðamenn ræddu við árásarmennina

Þrátt fyrir að aðgerðum í París sé ekki enn lokið hafa tugþúsundir manna safnast saman víða um landið á samstöðufundum. Slíkir fundir hafa farið fram í Nice, Orleans og Caen í dag en fjölmennasti fundurinn fór líklega fram í París þar sem um 30 þúsund komu saman til að minnast hinna látnu.

Boðað hefur verið til samstöðufundar á morgun í París og hafa David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, og Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, öll boðað komu sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×