Körfubolti

Tómas í stuði í fjórða og Þórsarar unnu Tindastól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tómas Heiðar Tómasson.
Tómas Heiðar Tómasson. Vísir/Pjetur
Vikan var góð fyrir Benedikt Guðmundsson og lærisveina hans í Þór frá Þorlákshöfn en liðið fylgdi á eftir sigri á ÍR á mánudagskvöldið með því að vinna Tindastól í æsispennandi leik í Þorlákshöfn í kvöld. Þór vann leikinn 97-95.

Þrír leikmenn Þórsliðsins skoruðu tuttugu stig eða fleiri í kvöld, Tómas Heiðar Tómasson var stigahæstur með 24 stig og þeir Vincent Sanford og Grétar Ingi Erlendsson skoruðu báðir 20 stig. Darrel Keith Lewis var með 32 stig og 14 fráköst fyrir Tindastól og Helgi Freyr Margeirsson var með 21 stig.

Þórsliðið hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki ársins og ætlar ekki að gefa neitt eftir í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.

Tindastólsliðið var aðeins búið að tapa tveimur leikjum á tímabilinu fyrir leikinn í kvöld en Stólarnir eru áfram í öðru sæti deildarinnar.

Þórsliðið var einu stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann, 25-24, en Stólarnir unnu annan leikhlutann 24-19 og voru með fjögurra stiga forskot í hálfleik, 48-44.

Leikurinn var æsispennandi í seinni hálfleiknum en staðan var jöfn fyrir lokaleikhlutann, 72-72.

Þórsliðið var skrefinu á undan í fjórða leikhluta og tókst að landa sigri ekki síst fyrir frábæra frammistöðu Tómasar Tómassonar sem skoraði 14 af 24 stigum sínum í fjórða leikhlutanum.



Þór Þ.-Tindastóll 97-95 (25-24, 19-24, 28-24, 25-23)

Þór Þ.: Tómas Heiðar Tómasson 24/6 fráköst/5 stoðsendingar, Grétar Ingi Erlendsson 20/9 fráköst, Vincent Sanford 20/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 12/6 fráköst, Oddur Ólafsson 9, Þorsteinn Már Ragnarsson 8, Nemanja Sovic 4.

Tindastóll: Darrel Keith Lewis 32/14 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 21, Myron Dempsey 18/6 fráköst, Darrell Flake 8/4 fráköst, Svavar Atli Birgisson 6, Helgi Rafn Viggósson 5/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ingvi Rafn Ingvarsson 2, Pétur Rúnar Birgisson 2/5 fráköst, Hannes Ingi Másson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×