Körfubolti

Stólarnir gerðu góða ferð vestur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lewis og félagar eru komnir í undanúrslit Powerade-bikarsins.
Lewis og félagar eru komnir í undanúrslit Powerade-bikarsins. vísir/ernir
Tindastóll tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta með sigri á Snæfelli í Stykkishólmi.

Myron Dempsey skoraði 23 stig og tók 11 fráköst fyrir Tindastól sem leiddi nær allan leikinn. Sex stig skildu liðin að í hálfleik, 30-36, en Stólarnir stungu af í þriðja leikhluta, sem þeir unnu 17-25.

Snæfell lagaði stöðuna í lokaleikhlutanum en náði aldrei að ógna forystu Tindastóls að neinu ráði. Stólarnir unnu að lokum 13 stiga sigur, 70-83.

Darrell Lewis átti, líkt og Dempsey, góðan leik í liði Tindastóls með 21 stig og fimm stoðsendingar. Þá skoraði Ingvi Rafn Ingvarsson tólf stig og tók sex fráköst en Stólarnir unnu frákastabaráttuna 41-49.

Sigurður Þorvaldsson fór fyrir Snæfellingum með 28 stig, en Christopher Wooods skilaði 15 stigum og 13 fráköstum. Hann hitti hins vegar aðeins úr þremur af 19 skotum sínum utan af velli.

Á morgun mætast svo KR og Keflavík og átta-liða úrslitunum lýkur svo á mánudaginn þegar Skallagrímur tekur á móti Fjölni og Stjarnan sækir Hamar heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×