Fótbolti

Iniesta: Barcelona getur unnið titla þrátt fyrir bannið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andres Iniesta.
Andres Iniesta. Vísir/Getty
Andres Iniesta, miðjumaður Barcelona, er sannfærður um að liðið haldi áfram að berjast um titlana þrátt fyrir að félagið megi ekki kaupa nýja leikmenn fyrr en árið 2016.

FIFA dæmdi Barcelona í bann fyrir að hafa ítrekað brotið reglur sambandsins um félagskipti ungmenna. Barcelona áfrýjaði dómnum en Áfrýjunardómstóll íþróttamála [e. CAS] í Lausanne staðfesti dóminn.

„Þetta félag er með nóg af hæfileikamönnum til að vinna titla og það er mikilvægt að trúa á okkur sjálfa og halda áfram að bæta okkar leik svo okkur takist að ná markmiðum okkar," sagði Andres Iniesta á blaðamannafundi fyrir leik Barcelona á móti Real Sociedad á morgun.

„Ég kom sjálfur upp í gegnum unglingastarfið og það er mín skoðun að La Masia gefi ungum leikmönnum frábært tækifæri til að þroskast sem persónur og sem fótboltamenn," sagði Iniesta um uppeldisstöð Barcelona sem hefur skilað mörgum frábærum leikmönnum upp í aðalliðið.

„Við getum ekki fengið nýja leikmenn og það er auðvitað galli en við verðum bara að einbeita okkur að þessu tímabili og þeim leikmönnum sem við höfum. Við ætlum að vinna titla," sagði Iniesta.

„Real vann fullt af titlum á síðasta ári og þeir verða í baráttunni. Öll lið lenda í hæðum og lægðum og þótt að það gangi vel hjá Real núna þá erum við á réttri leið," sagði Iniesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×