Viðskipti innlent

Verða alltaf til leiðir til að horfa á Netflix

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir málið mögulega vera tímabundin vandræði sem verða kannski ekki einu sinni sjáanleg.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir málið mögulega vera tímabundin vandræði sem verða kannski ekki einu sinni sjáanleg.
„Það verða alltaf til leiðir til að horfa á Netflix, sama hvaða pólitík sé til staðar hverju sinni,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata. „Það er löglegt og þetta er bara tímabundin möguleg vandræði sem verða kannski ekki einu sinni sjáanleg.“

Vísir sagði frá því fyrr í dag að Netflix ynni nú að því, að beiðni kvikmyndaframleiðslufyrirtækja, að koma í veg fyrir að íbúar í löndum þar sem fyrirtækið starfar ekki geti fengið aðgang að þjónustu fyrirtækisins.

Jón Þór segir nýju miðlana vera beitta þrýstingi af „gömlu viðskiptamódelunum“. „Þau reyna að þrýsta á sína hagsmuni. Það hefur alltaf gerst þegar hafa orðið stórar og miklar tæknibyltingar að gömlu viðskiptamódelin hafa tapað. Nýju viðskiptamódelin verða að minnsta kosti þykjast að spila með þeim gömlu þar til að risaeðlurnar deyja.“

Jón Þór segir Evrópudómstólinn þegar hafa kveðið upp dóm í sambærilegu máli þannig að Íslendingar ættu alltaf að geta sótt efni frá Netflix frá Evrópu, en talið er að allt að 20 þúsund íslensk heimili séu með aðgang að Netflix. „Það var breskur bar sem keypti sjónvarpsþjónustu frá réttarhöfum í Grikklandi – mig minnir að þetta hafi verið rétthafar enska boltans – í stað réttarhafans í Bretlandi. Þjónustan var einfaldlega ódýrari í Grikklandi. Hann var því búinn að gera samning við þessa réttarhafa í Grikklandi og gat sýnt þetta á barnum sínum í Bretlandi. Réttarhafarnir í Bretlandi voru hins vegar hundóánægðir með þetta, fóru með þetta fyrir dómstóla og töpuðu.“

Hann segir að í dómnum bendi Evrópudómstóllinn mjög skýrt á að ekki megi takmarka sölu á vöru og þjónustu innan evrópska efnahagssvæðisins.

Svo íslenskir Netflix-notendur geta alltaf sótt þetta um Evrópu?

„Ef Netflix ætlar að segja að þið séuð borgendur á Íslandi og getið þar af leiðandi ekki sótt þetta innan evrópska efnahagssvæðisins, þá verða þeir að taka ákvörðun um það hvort þeir ætli að lenda í einhvers konar málaferlum. Það er alltaf ákvörðun sem menn geta tekið.

Miðað við löggjöfina eins og hún er núna, að menn noti einhvers konar „proxy-a“ til að sækja efni frá Netflix sem sé öðruvísi en á vissum stöðum í Evrópu, sækja það til Bandaríkjanna til dæmis, þá gætu forsvarsmenn Netflix sagt eitthvað. En ef menn borga sína Netflix-áskrift og eru að sækja efnið innan evrópska efnahagssvæðisins, þá sýnist mér það vera nokkuð ljóst – og þetta erum við búin að skoða með okkar lögfræðingum – að Netflix væri með sínum notendaskilmálum og hegðun að brjóta evrópska löggjöf.“

Þessi dómur sé sem sagt fordæmisgefandi?

„Þessi dómur er algerlega fordæmisgefandi.“


Tengdar fréttir

Lokað endanlega fyrir Netflix á Íslandi?

Netflix vinnur nú að því að koma í veg fyrir að íbúar í löndum þar sem fyrirtækið starfar ekki geti fengið aðgang að þjónustu fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×