Fótbolti

Er Messi farinn að hugsa sér til hreyfings?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi hefur spilað með Barcelona allan sinn feril.
Lionel Messi hefur spilað með Barcelona allan sinn feril. Vísir/AFP
Árið hefur byrjað illa hjá Barcelona en fjölmiðlar á Spáni hafa fullyrt síðustu daga að Lionel Messi sé óánægður hjá félaginu og vilji mögulega komast í burtu.

Barcelona tapaði óvænt fyrir Real Sociedad, liði Alfreðs Finnbogasonar, um helgina og innan við sólahring síðar var búið að segja Andoni Zubizarreta upp störfum sem íþróttastjóra félagsins. Carles Puyol, aðstoðarmaður hans og fyrrum fyrirliði liðsins, hætti stuttu síðar störfum.

Áfrýjunardómstóll íþróttamála í Lausanne staðfesti svo á dögunum dóm Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, um að Barcelona hafi brotið félagaskiptareglur sambandsins og má Barcelona af þeim sökum ekki kaupa neina nýja leikmenn allt árið 2015.

Messi var á bekknum þegar Barcelona mætti Real Sociedad og spænska blaðið Marca fullyrti á forsíðu sinni í gær að Argentínumaðurinn væri óánægður hjá félaginu og ósáttur við knattspyrnustjórann Luis Enrique.

Fjölmiðlar víða fóru svo á flug í gær þegar það sást að Lionel Messi væri byrjaður að „elta“ enska knattspyrnufélagið Chelsea á samskiptamiðlinum Instagram. Hann hefur einnig verið orðaður við Manchester City og PSG.

Messi hefur margoft sagt að hann vilji ljúka ferli sínum hjá Barcelona en síðustu vikur og mánuði hafa sögusagnir þess efnis að annað kæmi á daginn hafa orðið sífellt háværari.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×