Erlent

Obama, Cameron og Harper fordæma árásina

Atli Ísleifsson skrifar
Tólf manns létust og sjö manns særðust í árásunum á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í morgun.
Tólf manns létust og sjö manns særðust í árásunum á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í morgun. Vísir/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur fordæmt árásina á skrifstofur tímaritsins Charlie Hebdo í París í morgun. Forsetinn sagði Frakkland vera elsti bandamann Bandaríkjanna og að Frakkar hafi staðið þétt við hlið Bandaríkjanna í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum „sem ógna sameiginlegu öryggi okkar og heiminum öllum“.

„Æ ofan í æ hefur franska þjóðin barist fyrir þau grunngildi sem fyrri kynslóðir okkar hafa varið. Frakkland, og hin merka borg París þar sem þessar árásir áttu sér stað, bjóða heiminum upp á tímalaust fordæmi sem mun lifa mun lengur en hin hatursfulla sýn þessara morðingja,“ segir Obama í tilkynningunni.

Obama segir jafnframt að bandarísk stjórnvöld hafi verið í samskiptum við frönsk stjórnvöld og boðið fram aðstoð til að hægt sé að rétta yfir þeim  hryðjuverkamönnum sem ábyrgð bera á árásunum.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fordæmdi árásirnar á breska þinginu í morgun. Þá hefur Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, lýst fyrir stuðningi við Frakka vegna hinna grimmdarlegu árása morgunsins.


Tengdar fréttir

„Allir eru í áfalli“

Lea Gestsdóttir Gayet býr í París og segist vera í sjokki vegna atburða morgunsins. Lea segir tímaritið Charlie Hebdo vera Frökkum mjög kært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×