Körfubolti

Skallagrímsmenn duglegir að skrifa undir samninga þessa dagana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Óskar formaður kkd. Skallagríms og Sigtryggur Arnar handsala nýjan samning.
Kristinn Óskar formaður kkd. Skallagríms og Sigtryggur Arnar handsala nýjan samning. Mynd/Heimasíða Skallagríms
Borgnesingar gengu ekki aðeins frá samningi við Magnús Þór Gunnarsson í gær því þeir framlengindu einnig samning við unga leikmenn sem hafa vakið athygli í vetur. Þetta kemur fram á heimasíðu Skallagríms.

Bakverðirnir Sigtryggur Arnar Björnsson og Davíð Ásgeirsson, sem báðir eru 22 ára gamlir, hafa sýnt góða spretti í Dominos-deildinni í vetur og þeir hafa nú náðir gengið frá samningi út tímabilið 2015 til 2016.

„Að sögn Kristins Óskars Sigmundssonar formanns kkd. Skallagríms er mikil ánægja með að Arnar og Davíð verði áfram í Borgarnesi. Þar fari allt í senn góðir leikmenn, góðar fyrirmyndir og ljúfir piltar," segir í fréttinni á heimasíðu Skallagríms.

Davíð Ásgeirsson er uppalinn Skallagrímsmaður en hann er með 8,5 stig og 3,2 fráköst að meðaltali í leik. Besta leikinn átti hann í óvæntum sigri á Stjörnunni í nóvember en hann skoraði þá 23 stig. Davíð hefur hitt úr 67 prósent þriggja stiga skota sinna í tveimur sigurleikjum Borgnesinga í vetur.

Sigtryggur Arnar Björnsson er að spila sitt fyrsta tímabil í Borgarnesi en hann er með 17,4 stig, 4,7 fráköst og 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu. Sigtryggur Arnar er annar stigahæsti leikmaður liðsins og sá sem hefur gefið flestar stoðsendingar.

Davíð og Sigtryggur Arnar geta haldið upp á samningana sína í kvöld þegar Skallagrímsliðið heimsækir Keflavík í tólftu umferð Dominos-deildar karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×