Innlent

Tony Omos mun áfrýja til Hæstaréttar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Tonys Omos.
Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Tonys Omos. vísir/vilhelm
Úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Tonys Omos gegn Útlendingastofnun og íslenska ríkinu verður áfrýjað til Hæstaréttar. Þetta staðfestir Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Omos, og verður það gert snemma á nýju ári.

Héraðsdómur staðfesti fyrir rúmum tveimur vikum niðurstöðu Útlendingastofnunar og innanríkisráðuneytisins að hafna því að taka hælisumsókn Omos til meðferðar.

Stefán Karl segir að sér hafi ekki gefist tími til að skoða forsendur dómsins ítarlega og því treysti hann sér ekki til að tjá sig sérstaklega um þær að svo stöddu.

Omos kom hingað til lands í október 2011 en þá var hann á leið til Kanada. Hann framvísaði kanadísku vegabréfi annars manns og var stöðvaður í flugstöðinni.

Síðar sótti hann um hæli hérlendis en á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar var hafnað að taka þá umsókn til meðferðar þar sem hann hafði sótt um hæli í Sviss árið 2008.

Omos byggði kröfu sína á því að hann ætti sérstök tengsl við landið í skilningi Útlendingalaga. Í október í fyrra sendi hann innanríkisráðuneytinu bréf sem sýna átti að staða hans hefði gjörbreyst. Meðal annars gengi kona, búsett á Íslandi, með barn hans. Engin gögn þóttu styðja þá staðhæfingu og var henni hafnað af dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×